Víkingar í yngri landsliðum Íslands

14. mars 2023 | Knattspyrna
Víkingar í yngri landsliðum Íslands

Knattspyrnusamband Íslands hefur tilkynnt nokkra landsliðshópa fyrir komandi landsleiki hjá yngri landsliðum Íslands.

U17 ára karla – Hópurinn sem tekur þátt í milliriðlum undankeppni EM 2023

Ísland er í riðli með Svartfjallalandi, Wales og Skotlandi. Þau lið sem vinna sína riðla fara áfram í lokakeppnina ásamt þeim sjö liðum með bestan árangur í öðru sæti riðlanna, en leikið er í átta riðlum. Riðillinn verður leikinn í Wales dagana 22.-28. mars.

Sölvi Stefánsson, leikmaður 2. flokks Víkings var valinn í hópinn en hann hefur einnig verið að taka sín fyrstu skref með meistaraflokk karla og komið til sögu í nokkrum leikjum hjá meistaraflokknum í vetur. Þá hefur Stígur Diljan Þórðarson einnig verið valinn í hópinn en Stígur er uppalinn Víkingur en hann var seldur til Benfica seinasta sumar þar sem hann leikur með unglingaliðum félagsins í dag.

U17 ára kvenna – Hópurinn fyrir aðra umferð undankeppni EM 2023

Ísland er í B deild undankeppninnar og á því ekki möguleika á sæti í lokakeppninni. Liðið mætir Albaníu og Lúxemborg, en leikið er í Albaníu. Takist Íslandi að vinna riðilinn þá kemst liðið upp í A deild fyrir fyrri umferð undankeppni EM 2024.

Freyja Stefánsdóttir, Sigdís Eva Bárðardóttir & Sigurborg Katla Sveinbjörnsdóttir, leikmenn Víkings hafa verið valdar í hópinn. Þrátt fyrir ungan aldur þeirra leika þær allar mikilvægt hlutverk í efnilegu liði meistaraflokk kvenna sem situr á toppi B riðils með 10 stig eftir 4 leiki spilaða. Katla leikur í markinu og þá leika Sigdís og Freyja á sitthvoru köntunum.

U19 karla – Hópurinn fyrir milliriðla undankeppni EM 2023

Ísland er í riðli með Englandi, Tyrklandi og Ungverjalandi, en leikið er á Englandi dagana 22.-28. mars. Efsta lið riðilsins fer beint áfram í lokakeppnina sem fer fram á Möltu dagana 3.-16. júlí 2023.

Gísli Gottskálk Þórðarson, leikmaður meistaraflokks karla var valinn í hópinn. Gísli kom frá Bologna til Víkings seinasta sumar og er gríðarlega efnilegur leikmaður sem hefur verið að fá tækifæri með Víkinsliðinu í vetur. Hann varð fyrir því óláni að meiðast í landsliðsverkefni rétt áður en undirbúningstímabil hófst. en hann er kominn aftur á gott skrið eftir meiðslin og verður spennandi að fylgjast með honum í Víkingsliðinu í sumar.

Við óskum öllum leikmönnunum innilega til hamingju með valið og óskum þeim góðs gengis í sínum verkefnum.