Knattspyrnufélagið Víkingur

1.gr.
Nafn
Nafn félagsins er Knattspyrnufélagið Víkingur. Aðsetur þess er í Reykjavík.

2.gr.
Markmið
Markmið félagsins er að iðka og útbreiða íþróttir og stuðla að heilbrigðu og þroskandi félagslífi, í samræmi við gildandi íþróttanámsskrá félagsins á hverjum tíma og gildandi stefnu ÍSÍ um barna-, unglinga- og afreksíþróttir.

3. gr.
Deildaskipting
Félaginu er skipt í deildir eftir íþróttagreinum og hefur hver deild eigin stjórn og eigin fjárhag. Allar deildir lúta aðalstjórn, sem fer með æðsta vald í málefnum félagsins á milli aðalfunda og mótar starfsemi félagsins í samráði við stjórnir deilda.

4. gr.
Innganga
Félagi verður sá einn, sem skráður er í félagatal. Félagið er opið öllum sem áhuga hafa á að starfa innan þess að íþrótta- og félagsmálum. Þeir gerast sjálfkrafa félagar sem æfa með félaginu, en aðrir skrá sig á þar til gerð eyðublöð.

5. gr.
Merki og búningar
Merki félagsins er skjöldur V-laga, og er V-ið hvítt. Ofantil í V-inu er brúnleitur knöttur, en fyrir neðan hann eru svartar og rauðar lóðréttar rendur.

Ekki er heimilt að breyta merki félagsins en bæta má við félagsmerkið nafni eða merki deildar að fengnu skriflegu samþykki aðalstjórnar.

Búningur er peysa með lóðréttum röndum, svörtum og rauðum. Buxur skulu vera svartar og sokkar svartir, rauðir eða hvítir.

Einstökum deildum skal heimilt að notast við annars konar keppnisbúninga, þar sem við á, að fengnu samþykki aðalstjórnar.

6. gr.
Fulltrúaráð
Í félaginu starfar fulltrúaráð samkvæmt „Reglugerð fyrir Fulltrúaráð Víkings“.

7. gr.
Reikningar
Aðalstjórn annast færslu bókhalds og hefur eftirlit með fjárreiðum allra deilda félagsins.

Aðalstjórn gerir heildar rekstrar- og efnahagsreikning yfir allan fjárhag félagsins. Ársuppgjör deilda fyrir síðastliðið reikningsár skal lokið fyrir 15. mars ár hvert. Ársuppgjöri félagsins skal lokið fyrir 30. apríl ár hvert. Skoðunarmenn eru hinir sömu fyrir aðalstjórn og deildir.

8. gr.
Aðalfundur félagsins
Aðalfundur félagsins skal haldinn eigi síðar en fyrir lok maí ár hvert.

Til aðalfundar skal boðað með auglýsingu á samfélagsmiðlum félagsins með minnst viku fyrirvara. Einnig skal auglýsa fundinn með sama fyrirvara í húsakynnum félagsins.

Aðalfundur hefur æðsta vald og ákvörðunarrétt í öllum málefnum félagsins.

Aðalfundur telst lögmætur, ef löglega er til hans boðað.

Allir félagar í Víkingi geta setið aðalfund sem áheyrnarfulltrúar með málfrelsi og tillögurétt.

Allir félagar 16 ára og eldri eru kjörgengir sem fulltrúar á aðalfund félagsins.

Atkvæðisrétt hafa eftirfarandi fulltrúar sem eru skipaðir af stjórn hverrar deildar eða ráðs:

1. 23 fulltrúar knattspyrnudeildar.

2. 17 fulltrúar handknattleiksdeildar.

3. 6 fulltrúar skíðadeildar.

4. 5 fulltrúar borðtennisdeildar.

5. 6 fulltrúar fulltrúaráðs.

6. 5 fulltrúar tennisdeildar.

7. 5 fulltrúar karatedeildar.

8. 5 fulltrúar almenningsdeildar.

9. 5 fulltrúar hjóladeildar

Í upphafi aðalfundar skal afhenda kjörbréf þeirra fulltrúa sem fundinn sækja.

Enginn fulltrúi má fara með meira en 1 atkvæði á aðalfundi félagsins.

Tillögur til lagabreytinga skulu berast aðalstjórn eigi síðar en 3 vikum fyrir aðalfund.

Aðalstjórn skal kynna stjórnum allra deilda tillögur til lagabreytinga minnst viku fyrir boðaðan aðalfund félagsins. Þó má taka fyrir tillögur til lagabreytinga ef 2/3 atkvæðisbærra fundarmanna samþykkja.

Til lagabreytinga þarf samþykki 2/3 greiddra atkvæða.

Aðrar tillögur sem lagðar eru fram á aðalfundi hljóta samþykki með einföldum meirihluta, sjá þó 23. gr.

Formaður aðalstjórnar skal kosin á aðalfundi til eins árs í senn.

Jafnframt skal kjósa þrjá (3) meðstjórnendur til tveggja ára í senn. Auk þess skal kjósa einn (1) mann í varastjórn til tveggja ára í senn.

9. gr.
Aukaaðalfundur
Aukaaðalfund má halda, ef aðalstjórn telur þess þörf, eða ef ¾ hluti deilda félagsins krefjast þess skriflega. Um aukaaðalfund gilda sömu ákvæði og um aðalfund.

10. gr.
Dagskrá aðalfundar félagsins
Á aðalfundi félagsins skulu tekin fyrir eftirfarandi málefni:

1. Kosning í þriggja (3) manna í kjörbréfanefnd.

2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

3. Skýrsla aðalstjórnar, er leggur fram heildarskýrslu um starfsemi og framkvæmdir á vegum félagsins á liðnu starfsári.

4. Skýrsla um fjárhag félagsins þar sem lagður er fram til samþykktar endurskoðaður efnahags- og rekstrarreikningur félagsins í heild.

5. Tillögur að lagabreytingum lagðar fram til samþykktar.

6. Kosning formanns til eins árs.

7. Kosning þriggja (3) manna í stjórn til tveggja ára og eins (1) í varastjórn til tveggja ára.

8. Kosning tveggja (2) skoðunarmanna.

9. Önnur mál.

10. Fundargerð lesin upp og skráðar athugasemdir ef fram koma.

11. gr.
Verksvið aðalstjórnar
Á fyrsta stjórnarfundi eftir aðalfund félagsins skiptir aðalstjórn með sér verkum og skipar varaformann, ritara, gjaldkera og þrjá meðstjórnendur.

Aðalstjórn ber að efla félagið og gæta hagsmuna þess í hvívetna.

Aðalstjórn fer með fjármál félagsins og ber endanlega ábyrgð á fjármálum allra deilda félagsins. Þá hefur aðalstjórn umráðarétt yfir öllum eigum félagsins, nema umráðaréttur tiltekinna eigna hafi verið framseldur sérstaklega til einstakra deilda.

Aðalstjórn skal boða á fund sinn formenn deilda eftir því sem þurfa þykir og eigi sjaldnar en árlega til viðræðna um málefni einstakra deilda. Formenn deilda skulu þá gefa skýrslur um starfsemi og fjárhag deilda og ræða sameiginleg mál.

Aðalstjórn ákvarðar félagsgjöld og skal halda skrá yfir alla meðlimi félagsins.

Formaður boðar stjórnarfundi, þegar hann eða meiri hluti stjórnar telur nauðsynlegt og er stjórnarfundur ályktunarhæfur ef a.m.k. 4 (fjórir) stjórnarmenn eða varastjórnarmenn sækja fund.

Aðalstjórn skal færa fundargerðir í sérstaka fundargerðabók, en samþykki meiri hluta fundarmanna þarf til einstakra ákvarðana og ályktana aðalstjórnar.

Aðalstjórn er heimilt að skipa þær nefndir og ráð innan félagsins, sem hún telur þörf fyrir og setja þeim reglur.

Aðalstjórn ræður framkvæmdastjóra að félaginu og ákveður kjör hans. Skal verksvið framkvæmdastjóra vera daglegur rekstur félagsins og mannvirkja þess, umsjón með bókhaldi og fjárreiðum, samskipti við sveitarfélög, íþróttahreyfinguna, önnur íþróttafélög og þess háttar. Starfssvið framkvæmdastjóra skal útfært nánar í starfslýsingu sem aðalstjórn setur.

12. gr.
Styrktar- og afrekssjóðir
Aðalstjórn ber ábyrgð á styrktarsjóði félagsins og setur um hann reglugerð.

Aðalstjórn skal einnig setja reglur um afrekssjóði félagsins.

13.gr.
Aðalfundir deilda
Hver deild skal halda aðalfund eigi síðar en fyrir lok aprílmánaðar ár hvert og skal hann auglýstur með að minnsta kosti 7 daga fyrirvara. Þó er heimilt að halda aðalfund deilda á öðrum tíma, ef sérstök ástæða þykir til, en til þess þarf samþykki aðalstjórnar hverju sinni. Á lögmætum aðalfundi hafa allir viðstaddir félagar 14 ára og eldri atkvæðisrétt.

Um kosningu í stjórnir deilda og afgreiðslu mála á aðalfundi deilda fer eftir 15. gr.

14. gr.
Aðalfundarvanræksla
Vanræki deild að halda aðalfund fyrir tilsettan tíma, skal aðalstjórn boða til fundarins og sjá um framkvæmd hans.

15. gr.
Dagskrá aðalfunda deilda
Á aðalfundi deilda skulu tekin fyrir eftirfarandi málefni:

1. Kosning fundarstjóra og fundarritara.

2. Skýrsla formanns. Skýrsla (ásamt móta- og leikmannaskýrslum) skal liggja frammi.

3. Gjaldkeri gerir grein fyrir endurskoðuðum reikningum.

4. Kosning formanns.

5. Kosning tveggja (2), fjögurra (4) eða sex (6) manna stjórnar, samkvæmt sameiginlegri ákvörðun aðalstjórnar og fráfarandi stjórnar viðkomandi deildar.

6. Kosning tveggja (2) til þriggja (3) manna í varastjórn, samkvæmt sameiginlegri ákvörðun aðalstjórnar og fráfarandi stjórnar viðkomandi deildar.

7. Önnur mál.

8. Fundargerð lesin upp og skráðar athugasemdir ef fram koma.

16. gr.
Verksvið deildastjórna
Kjörnir stjórnarmenn hverrar deildar skipta með sér verkum, þannig að auk formanns skal vera varaformaður, ritari, gjaldkeri og meðstjórnendur, þar sem stjórnarmenn eru fjórir eða fleiri, en gjaldkeri og ritari þar sem stjórnarmenn eru tveir.

Formaður boðar stjórnarfundi, sem skylt er að halda reglulega og skulu fundargerðir færðar í sérstaka fundargerðabók.

Hver deild hefur sjálfstæðan fjárhag. Stjórnir deilda skulu annast allan daglegan rekstur og til deildanna rennur ágóði sem kann að verða af starfsemi þeirra.

Deildastjórnir skulu árlega leggja fram hallalausa rekstraráætlun til aðalstjórnar og fá hana samþykkta áður en þær gangast undir fjárhagslegar skuldbindingar. Aðalstjórn ber ekki ábyrgð á öðrum fjárskuldbindingum deilda en þeim sem getið er um í rekstraráætlun sem hlotið hefur samþykki með áritun sérstaks fjárhagsráðs aðalstjórnar sem skipað skal formanni, varaformanni og gjaldkera félagsins. Frávik frá rekstraráætlun og allar viðameiri fjárhagslegar skuldbindingar deilda skal bera undir fjárhagsráð aðalstjórnar með sama hætti.

Aðalstjórn hefur á hverjum tíma rétt til að skoða bókhald og fjárreiður deilda og getur í því skyni tilnefnt sérstakan trúnaðarmann til slíkra verka, sem getur komið með fyrirmæli og tillögur til úrbóta ef þurfa þykir.

Stjórnum deilda er heimilt að innheimta æfingagjöld af félögum deildarinnar. Stjórnir skulu halda skrá yfir alla félaga viðkomandi deilda og skal afrit af þeim sent aðalstjórn.

17. gr.
Eignir
Eignir hverrar deildar eru sameign félagsins. Hætti einhver deild störfum renna eignir hennar óskiptar til aðalstjórnar.

18. gr.
Heiðursfélagar og heiðursmerki
Viðurkenningu fyrir störf í þágu félagsins eða íþóttahreyfingarinnar, svo og fyrir íþróttaárangur, veitir aðalstjórn samkvæmt „Reglugerð um heiðursfélaga og heiðursmerki Knattspyrnufélagsins Víkings“.

19. gr.
Úrsögn
Skrifleg úrsögn úr félaginu er heimil hvenær sem er. Úrsögn skal komið til skrifstofu aðalstjórnar.

20. gr.
Brottrekstur

Hafi félagsmaður brotið lög þessi eða með framkomu sinni vegið að heiðri félagsins og markmiðum er aðalstjórn heimilt að víkja honum úr félaginu. Skylt er aðalstjórn að boða viðkomandi félagsmann á sinn fund og gefa honum kost á að koma á framfæri andmælum. Ákvörðun aðalstjórnar um brottrekstur er gild, ef ¾ stjórnarmanna samþykkja brottreksturinn.

21. gr.
Veðsetning fasteigna
Til veðsetningar fasteigna þarf samþykki ¾ stjórnarmanna aðalstjórnar.

22. gr.
Sala fasteigna og félagsslit
Sala fasteigna telst því aðeins lögmæt hafi ¾ stjórnarmanna aðalstjórnar samþykkt hana. Að auki þarf 2/3 atkvæðisbærra félaga á lögmætum aðalfundi að samþykkja söluna.

Félagsslit geta ekki öðlast gildi nema aðalstjórn samþykki þau og tveir (2) lögmætir aðalfundir hafi samþykkt félagsslit með 2/3 hluta greiddra atkvæða.

Aðalfundi vegna félagsslita skal halda með minnst fjögurra (4) vikna millibili og mest átta (8) vikna millibili.

23. gr.
Samstarf
Félagið skal vera innan vébanda ÍBR og ÍSÍ.

24. gr.
Gildistaka.
Lög þessi öðlast gildi þegar í stað og falla þá úr gildi eldri lög félagsins.

Reykjavík, 9. júlí 2020