fbpx

Lokahóf meistaraflokks kvenna

22. nóvember 2024 | Knattspyrna
Lokahóf meistaraflokks kvenna
Freyja Stefánsdóttir (Efnilegust), Gígja Valgerður Harðardóttir (Lárubikarinn) og Erna Guðrún Magnúsdóttir (Best)

Lokahóf meistaraflokks kvenna var haldið í gær í hátíðarsal Víkings á Heimavelli Hamingjunnar. Þar mættu leikmenn, starfsfólk og aðrir velunnarar meistaraflokksins og fögnuðu saman frábærum árangri árið 2024.

Eftir frábært ár 2023 þar sem stelpurnar sóttu Lengjubikarinn, Lengjudeildarbikarinn og sjálfan Mjólkurbikarinn var þeim spáð 6.-7. sæti í deildinni af flestum sérfræðingum sumarið 2024. Áður en Besta deildin hófst byrjuðu stelpurnar reyndar á því að sækja Reykjavíkurbikarinn og Meistarabikarinn (Meistarar meistaranna) gegn Val á Hlíðarenda. Mikilvægt er að nefna að nýafstaðið tímabil var það fyrsta sem Víkingur spilaði í efstu deild í 40 ár undir nafni Víkings.

Sætir sigrar og súr töp fylltu á reynslubankann og í lokaumferðinni dugði okkur sigur gegn Þór/KA til að tryggja 3. sætið í Bestu deildinni árið 2024. Því er skemmst frá að segja að Freyja Stefánsdóttir (fædd árið 2007) skoraði stórglæsilegt mark og lauk leiknum með 0-1 sigri Víkings. 3.sæti í Bestu staðfest. Takk.

Það má því með sanni segja að árið 2024 hafi verið frábært ár hjá meistaraflokki kvenna og fer félagið stórhuga inn í árið 2025. Áfram Víkingur!

Hér má sjá verðlaunahafa lokahófsins og myndir frá afhendingunni.

Efnilegasti leikmaður 2024 valinn af þjálfurum og stjórn
Efnilegasti leikmaður tímabilsins 2024 er uppalinn Víkingur. Hún skrifaði undir sinn fyrsta samning við Víking árið 2022 og var þá yngsti leikmaður í sögu Víkings til að skrifa undir samning við félagið. Frá þeim tíma hefur hún spilað 63 leiki með mfl. og skorað í þeim 12 mörk.

Efnilegasti leikmaður Víkings 2024 er Freyja Stefánsdóttir.

Besti leikmaður Víkings 2024 valinn af þjálfurum og stjórn
Besti leikmaður tímabilsins 2024 lék 22 af 23 leikjum í deildinni og náði einnig þeim merka áfanga að hafa nú leikið 100 leiki í efstu deild á ferl­in­um. Hún sýndi það í sumar hversu öflugur leikmaður hún er og er einn af sterkustu varnarmönnum deildarinnar.

Besti leikmaður Víkings 2024 er Erna Guðrún Magnúsdóttir

Lárubikar, best innan vallar sem utan, valið af leikmönnum
Verðlaunin, „Besti leikmaður utan sem innan vallar“ og byggja eins og að framan segir á vali leikmann meistaraflokks og er veitt í minningu Láru Ingibjargar Fanneyjar Herbjörnsdóttur, driffjöður í starfi kvennaflokka Víkings á árum áður. Verðlaunin eru veitt þeim leikmanni sem þykir vera „límið“ í liðinu og mikilvægust í því að halda uppi góðum liðsanda utan sem innan vallar, með Víkings-hjartað á réttum stað!

Leikmaðurinn sem hlýtur þessi verðlaun býr yfir mikilli reynslu. Í sumar komst hún  í fá­menn­an hóp ís­lenskra knatt­spyrnu­kvenna í þegar hún lék sinn 250. leik­ í deildar­keppn­i á Íslandi og hún er 27. ís­lenska kon­an frá upp­hafi sem nær þeim leikja­fjölda!

Hún spilaði með HK/Víking árið 2016-2019 en kom til Víkings fyrir þetta tímabil eftir að hafa eignast 2 börn, já tvö! Hún sýndi okkur í sumar hversu góður leikmaður hún er og mikilvæg innan vallar sem utan!

„Þegar leikmenn voru spurðir afhverju þessi leikmaður átti verðlaunin skilið stóð ekki á svörum. Fyrir utan að hafa staðið sig frábærlega inn á vellinum í sumar er henni lýst sem einstaklega jákvæðri, hjálpsamri og sem miklum peppara sem er ALLTAF í góðu skapi. Það er hægt að treysta því að hún standi við bakið á samherjum sínum, passi upp á ungu leikmennina og láti í sér heyra sé þörf á. En eftirfarandi rökstuðningurinn kjarnaði afhverju þessi leikmaður á verðlaunin skilið : Hún átti frábært tímabil, er með hlýtt hjarta og er alltaf til staðar fyrir mann“

Láru Bikarinn 2024 fer til Gígju Valgerðar Harðadóttur.

Glæsilegir fulltrúar Víkings hér á ferð og rúmlega það. Til hamingju Freyja, Gígja og Erna! 🖤❤️

 

Best – Erna Guðrún Magnúsdóttir

Efnilegust : Freyja Stefánsdóttir

Lárubikarinn : Gígja Valgerður Harðardóttir

Fyrirliðar Meistaraflokks : Selma Dögg Björgvinsdóttir, Erna Guðrún Magnúsdóttir og Bergdís Sveinsdóttir tóku við 3.sætis skildinum frá meistaraflokksráði.