16 liða úrslit – KR – Víkingur

27. maí 2023 | Highlights, Mjólkurbikar kvenna, Víkingur TV
16 liða úrslit – KR – Víkingur

Í dag fóru Víkingar í heimsókn til KR á Meistaravelli og tryggðu sér farmiða í 8 liða úrslitin með sterkum 4-1 sigri.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en eftir 14 mínútur skoraði Hugrún Helgadóttir fyrir KR. Staðan orðin 1-0 fyrir heimakonum. Það sem eftir lifði fyrri hálfleiks má segja að KR hafi verið mun nær að bæta við marki og staðan var 1-0 í hálfleik. 2 breytingar voru gerðar á liðinu í hálfleik þegar Svanhildur og Hafdís Bára fóru út af og inn á komu Nadía og Hulda. Víkingar mættu af meiri krafti í seinni hálfleikinn og nokkuð ljóst að hvorki leikmenn né þjálfarateymi var sátt með frammistöðuna í fyrri hálfleik.

Í upphafi síðari hálfleiks 1-0 fengu KR dauðafæri til að komast í 2-0 en Katla sem var frábær í markinu sagði : „Ekki í dag, þessi fer ekki inn“.  Algjört lykilmoment í leiknum þar á ferð. Á 54 mínútu jafnaði Linda Líf með glæsilegu mark eftir frábæra sendingu frá Sigdísi utan af vinstri kanti, en Sigdís spilaði seinni hálfleikinn í vinstri bakverðinum. Víkingar mættir til leiks og liðið komið í gírinn. Það kom okkur sem lýstum leiknum því töluvert á óvart að sjá þrefalda skiptingu á 60 mínútu þegar Dagný, Freyja Stefáns og Selma komu inn á fyrir Lindu, Bergdísi og Ólöfu. Völlurinn var ekki í sínu besta standi, vægast sagt, og væntanlega hafa þjálfarar liðsins verið með ákveðið plan um mínútur fyrir ákveðna leikmenn. Þessar skiptingar hægðu ekki á liðinu, heldur þvert á móti fór liðið bara upp um annan gír og næstu 30 mínútur voru algjörlega eign Víkinga frá a til ö.

Á 61 mínútu, 1 mínútu eftir skiptingarnar, skoraði Freyja Stefáns og staðan orðin 2-1 og hún var ekki hætt heldur kom okkur í 3-1 á 64 mínútu. Víkingar fengu fleiri fær til að skora og KR ógnuðu en þó ekki nægilega mikið til að skapa sér dauðafæri. Þegar leikurinn var við það að fjara út fengu Víkingar hornspyrnu á 85 mínútu. Hulda tók hornspyrnuna og þó leikskýrslan segi að hér hafi verið um sjálfsmark að ræða þá ætlum við að skrá það algjörlega á Huldu. Staðan orðin 4-1 og góður sigur Víkinga kominn í hús ásamt farmiða í 8 liða úrslit í Mjólkurbikarnum.

Við tökum ekkert af KR sem áttu fyrri hálfleikinn og voru í raun óheppnar að komast ekki í 2-0 í upphafi fyrri hálfleiks en eins og áður segir var Katla ekkert á þeim buxunum að hleypa þeim bolta í netið. Flottur síðari hálfleikur skóp svo þennan góða sigur og við verðum að nefna innkomu Freyju enda ekki á hverjum degi sem leikmaður skorar 1 mínútu eftir að hún kemur inn á völlinn og svo aftur 3 mínútum síðar.

Lokastaðan 4-1 fyrir Víking.

Þökkum KR kærlega fyrir móttökurnar á Meistaravöllum og óskum þeim velgengni í sumar. Flottur hópur þarna á ferð. Næsti leikur Víkinga er útileikur á móti Fylki þann 3.júni næstkomandi. Sjáumst þá og áfram Víkingur!

Helstu færi og mörk úr leiknum

Byrjunarlið og hópurinn