
Kæru Víkingar.
Knattspyrnufélagið Víkingur hefur tekið mikilvægt skref í áframhaldandi uppbyggingu félagsstarfs og samskipta við stuðningsfólk, hverfin og Víkings samfélagið. Félagið hefur opnað nýjan samfélagsmiðil á Facebook og Instagram sem verður miðlægur vettvangur fyrir allt félagið og allar deildir þess.
Markmiðið með nýjum miðlum er að efla upplýsingagjöf, einfalda aðgengi að fréttum félagsins í heild og gera stuðningsfólki kleift að fylgjast betur með fjölbreyttu starfi félagsins á einum stað. Þar mun birtast efni um allt sem viðkemur Víkingi, frá yngri flokkum til meistaraflokka, og frá félagsstarfi til viðburða og árangurs á öllum sviðum íþrótta og tómstundaiðkunar innan félagsins.
Í tengslum við þessa breytingu munu núverandi samfélagsmiðlar Víkingur Fótbolti og Víkingur Handbolti halda áfram starfsemi sinni, en munu þá sérhæfa sig í að miðla fréttum af starfsemi deildanna sjálfra. Sama á við um miðla annarra deilda félagsins. Nýi miðillinn er því opinber miðill félagsins í heild og ætlaður fyrir allt sem við kemur starfsemi félagsins. Með þessu skipulagi teljum við að miðlun upplýsinga verði skýrari en á sama tíma fái deildir félagsins aukið frelsi til að þróa samband sitt við sína iðkendur og aðra fylgjendur.
Við hvetjum allt stuðningsfólk, iðkendur, foreldra sem og aðra áhugasama til að fylgja nýja miðlinum og taka þátt í öflugu samfélagi félagsins.