fbpx

Víkingur – ÍR | Sigur í fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu

7. janúar 2024 | Víkingur TV, Knattspyrna
Víkingur – ÍR | Sigur í fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu
Hafdís Bára skoraði 3 mörk í dag og fór heim með "Match ball" ⚽️⚽️⚽️

Fyrr í dag mættust Víkingur og ÍR í fyrsta leik ársins hjá Meistaraflokki kvenna og jafnframt fyrsta leik þeirra í Reykjavíkurmótinu árið 2024. Rúmlega 100 áhorfendur mættu í Egilshöllina og meirihluti var á bandi okkar Víkinga. Það þurfti heilan her af sjálfboðaliðum til að láta þennan leik verða að veruleika en hann var upphaflega settur á í Víkinni en vegna veðurspár var ákveðið að færa leikinn inn í hlýjuna í Grafarvogi. Víkings fjölskyldan er stór og það átti heldur betur eftir að koma í ljós þegar leið á daginn.

Leikurinn fór af stað með miklum látum og augljóst að leikmenn Víkings voru mættar til að taka 3 stig. Sigdís Eva kom okkur yfir á 3 mínútu leiksins eftir góða sókn og svo bættu Hafdís Bára og Selma Dögg við mörkum. 3-0 eftir 30 mínútur og ljóst í hvað stefndi en þannig var staðan í hálfleik. Staðan hefði samt auðveldlega getað verið 5 eða 6-0 í hálfleik.

Í hléinu ákváðu John og Kristó að gera 3 breytingar á liðinu, inn komu Ólöf, Gígja og Bergdís í stað Selmu, Emmu og Ernu. Sigdís Eva byrjaði seinni hálfleikinn alveg eins og hún byrjaði og á ’48 mínútu kom hún okkur í 4-0 með góðu marki.

Á ’59 mínútu kom svo Elíza Gígja Ómarsdóttir inn á í stað Sigdísar og John og Kristó gerðu enn fleiri breytingar á liðsuppstillingunni. Elíza var hér að spila sinn fyrsta leik fyrir meistaraflokk í 2 ár og það var virkilega gaman að sjá hana aftur komna af stað á fullu. Bergdís bætti við fimmta marki okkar á ’60 mínútu eftir enn eina glæsilegu sóknina.

Á ’71 mínútu var enn ein breytingin gerð þegar Karítas Guðmundsdóttir kom inn á í stað Freyju Stefánsdóttur, sem var gjörsamlega búin að brjóta bakverði ÍR niður með hraða sínum og ákefð. Stuttu áður hafði Hafdís Bára skorað sjötta mark Víkings.

ÍR liðið, þrátt fyrir vera búið að fá á sig 6 mörk hélt áfram að spila eftir sinni forskrift og áttu nokkur tækifæri í seinni hálfleik til að stríða okkur Víkingum en vörnin okkar og Katla leystu vel úr þeim verkefnum sem komu á þeirra borð.

Síðustu breytingar á liði Víkings komu á ’75 mínútu þegar Dagný og Birta fengu að hvíla sig og Þórdís Embla og Inga Lilja komu inn í þeirra stað. Þá voru allir leikmenn á skýrslu komnir inn á og búið að hrófla vel við leikskipulagi og flestir leikmenn búnir að spila a.m.k. 2 stöður á vellinum. En það tók ekki langan tíma fyrir Víking að ná aftur völdum á leiknum. Þrátt fyrir það náðu ÍR að komast upp völlinn og náðu góðu skoti á markið fyrir utan teig, sem Katla varði frábærlega. Upp úr hornspyrnunni kom svo klafs í teignum sem endaði með því að varnarmaður Víkings fékk boltann í höndina af mjög stuttu færi. Víti dæmt. Katla var nálægt því að verja en vítið var afar öruggt, í hægra hornið niðri (séð frá markmanni) og staðan því orðin 6-1.

Hér héldum við sem vorum að lýsa leiknum að leikurinn myndi fjara út en við höfðum heldur betur rangt fyrir okkur því á ’90 mínútu skoraði Hafdís Bára. Staðan orðin 7-1 og Hafdís komin með þrennu. 3 mínútum síðar skoraði Bergdís svo sitt annað mark og lokastaðan 8-1 í góðum sigri.

Víkingsliðið var mjög skipulagt, vel undirbúið og þær virkuðu í fantaformi. Leikmenn meistaraflokks sem eru reynslumeiri áttu mjög góðan leik heilt yfir en það var virkilega gaman að sjá yngri leikmenn koma inn og setja mark sitt á leikinn. Allt liðið skilaði sínu, Katla varði vel þegar á þurfti, vörnin, miðjan, sókn. Enginn leikmaður fór heim í dag með hangandi haus enda skiluðu allir sínu og rúmlega það. Það er líka gaman að hugsa til þess að fjöldi leikmanna var ekki með í dag t.d. Nadía, Linda Líf og fleiri. Hópurinn er sterkur og það sást vel í dag.

Þrátt fyrir frábæra frammistöðu heilt yfir í dag þá var „Maður leiksins“ auðvelt val. Hafdís Bára hlaut þá nafnbót með því að skora 3 góð mörk í dag.

Næsti leikur hjá stelpunum er svo á föstudaginn þegar stelpurnar okkar fara í Egilshöllina í heimsókn til Fjölnis. Við verðum að sjálfsögðu á staðnum með VíkingurTV setupið okkar og sendum leikinn út í beinni útsendingu.

Tímabilið getur varla farið betur af stað kæru Víkingar, sigur í gær og sigur í dag. Hamingjan er svo sannarlega hér. Sjáumst í Egilshöll á föstudag!

Hörður

Ps. hér má svo sjá upptöku frá leiknum