Víkingur – Breiðablik | Skilaboð frá stjórn Knattspyrnudeildar
26. október 2024 | KnattspyrnaKæru Víkingar og aðrir landsmenn.
Framundan er stærsti leikur sem fram hefur farið í Víkinni, þar sem um 2.500 manns munu koma saman og fylgjast með lokaleik Bestu deildar karla árið 2024. Undanfarnar vikur hefur verið unnið að því að undirbúa þennan leik og höfum við gert allt sem í valdi okkar stendur til þess að sem flest geti mætt á völlinn. Ljóst varð að hámarkstala gesta er 2.500 og var ákveðið að veita stuðningsfólki Breiðabliks 250 miða eða 10%. Stúkan tekur um 1.100 manns í sæti og til viðbótar verða um 1.400 í stæði sem við höfum byggt undanfarna daga.
Ársmiðahafar Víkings fengu sérstaka forsölu á miða í stúku og síðan aðra miðasölu fyrir miða í stæði. Þar voru seldir um 1.600 miðar samtals. Í kjölfarið fengu iðkendur félagsins tækifæri á að tryggja sér miða, ásamt foreldri eða forráðamanni. Þegar félagið hefur staðið við sínar skuldbindingar gagnvart KSÍ, ÍTF og styrktar- og samstarfsaðilum er ljóst að orðið er uppselt á völlinn.
Við hvetjum þau sem eiga miða á völlinn til þess að mæta í rauðu og svörtu á morgun, en á sama tíma verðum við að vara við því að miðalausir einstaklingar mæti á svæðið. Það verður gífurleg öryggisgæsla á vellinum til að tryggja að allt fari vel fram og að öryggi gesta verði í forgangi.
Síðar í kvöld verður dagskrá morgundagsins birt og við hvetjum gesti til að mæta snemma.
Sjáumst á morgun.
Áfram Víkingur!“