fbpx

Víkingar Lengjubikarmeistarar í B-deild mfl. kvenna í fyrsta sinn

25. apríl 2023 | Knattspyrna
Víkingar Lengjubikarmeistarar í B-deild mfl. kvenna í fyrsta sinn

Víkingar tryggðu sér sinn fyrsta bikar með sjálfstæðu liði meistaraflokks kvenna með 6-0 sigri á Fram í lokleik lengjubikarsins. Sigurinn er kærkomin staðfesting á þeirri stöðu sem liðið er í eftir markvisst uppbyggingarstarf undanfarinna ára, eða allt frá því að sjálfstæður meistaraflokkur varð til og samstarfi við HK var slitið fyrir fjórum árum.

Liðið átti reyndar í harðri baráttu við HK um titilinn og má eiginlega segja að innbyrðis leikur liðanna, fyrir nokkrum dögum, hafi ráðið úrslitum hvort þeirra lyfti bikarnum. Reyndar var líkt á með liðunum komið í fyrra, en jafntefli þá kostaði Víkinga þá naumlega sigur í deildinni.

Sameiginlega unnu þessi lið lengjubikar C-deildar þrisvar sinnum, árin 2007, 2015 og 2017. HK/Víkingur gerði svo gott betur bæði 2007 og 2017, því með sigri í 1. deild Íslandsmótsins þau ár tryggði liðið sig upp í deild þeirra bestu…

Lengjubikarinn byrjaði reyndar heldur brösuglega hjá stúlkunum, því eftir öruggan 4-1 sigur á móti Augnabliki máttu Víkingar þakka fyrir stigið sem þær fengu með jöfnunarmarki þegar komið var fram yfir venjulegan leiktíma á móti Gróttu, 2-2. Frækinn 5-2 sigur vannst svo á sterku liði Fylkis í Árbænum, þar sem stelpurnar sýndu úr hverju þær eru gerða. Andstæðingarnir voru vissulega erfiðir en veðrið sem boðið var upp á var skelfilegt, norðan kaldi og næstum og hátt í 10 stiga frost. Víkingar lentu svo óvænt undir á móti Grindavík í næsta leik, en unnu að lokum þægilegan 5-1 sigur.

Þá var komið að stóra prófinu, HK hafði þá ekki tapað stigi fjórum fyrstu leikjum sínum og mætti til leiks með það í farteskinu að þeim mundi væntanlega nægja jafntefli til að tryggja sér sigur í deildinni. Eftir jafnar upphafsmínútur, þar sem liðin gáfu fá færi á sér komst HK loks yfir, eftir um hálftíma leik og leiddu með þeirri forystu í hálfleik. Víkingar komu hins vegar ákveðnar til seinni hálfleiks, jöfnuðu og komust svo yfir áður en 10 mínútur voru liðnar. Þrátt fyrir að HK hafi lagt allt í sölurnar undir lokin þá héldu Víkingar sínu og kláruðu leikinn með 2-1 sigri. Víkingar þurftu mæst að mæta Fjarðarbygg/Leikni/Hetti í Fjarðarbyggðar-höllinni austur á Reyðarfirði. Líkt og þrisvar sinnum áður í þess móti, lentu Víkingar marki undir snemma leiks, en líkt og áður kom liðið til baka og vann að lokum 2-1 sigur.

Þá var komið að síðasta andstæðingnum. Framarar höfðu reyndar átt í töluverðu basli í vetur og Víkingar höfðu t.d. unnið þá stórt í Reykjavíkurmótinu. Þeir höfðu hins vegar verið að safna að sér útlendingum og því ekki alveg vitað hvar þeir stæðu. Víkings-stúlkur voru staðráðnar að færa félaginu bikar á 115-ára afmælisdaginn og byrjuðu leikinn með látum og voru eiginlega búnar að gera út um hann á fyrsta hálftímanum, 6-0 var síst of stór sigur, slíkir voru yfirburðirnir. Bikarinn fór svo á loft í leikslok við mikinn fögnuð leikmanna of fjölda áhorfenda sem voru vel á þriðja hundrað.

Til hamingju stelpur og allir Víkingar.