Þrír heiðursfélagar útnefndir
30. desember 2024 | FélagiðÁ árlegu áramótakaffi Víkings í dag voru þrír höfðingjar útnefndir sem heiðursfélagar félagsins.
Guðmundur Kristinsson
Guðmundur Kristinsson er fæddur 1950 og flutti í Bústaðahverfið fjögurra ára gamall. Hann telst því til frumbyggja í hverfinu, sem byggðist hratt upp á áratugnum milli 1950 og 1960. Guðmundur hefur verið grjótharður Víkingur frá sjö ára aldri og spilaði bæði handbolta og fótbolta með félaginu.
Guðmundur er ævinlega á sínum stað í stúkunni á leikjum Víkings í fótboltanum, hvort sem er á heimavelli hamingjunnar eða á útivöllum. Sterk rödd hans yfirgnæfir þá gjarnan aðrar þegar koma þarf skilaboðum til dómaranna.
Guðmundur sat á sínum tíma í aðalstjórn og einnig í stjórn knattspyrnudeildar. Hann hefur víða komið að starfi í félaginu og þó svo að nafn hans hafi ekki alltaf farið hátt þá hefur styrkur hans og stuðningur skipt miklu máli í vexti og viðgangi félagsins. Guðmundur hefur verið kraftmikill og mikilvægur bakhjarl og hvetjandi stuningsmaður alla tíð.
Róbert Birgir Agnarsson
Róbert Agnarsson fæddist í Hólmgarði 42 í október 1957. Heimilið var aðeins um 100 metra frá gamla Víkingssvæðinu og ef guttinn týndist þá var ekki flókið að finna hann á Víkingsvellinum, hinum megin við hitaveitustokkinn. Róbert byrjaði að iðka knattspyrnu með Víkingi 5 ára og síðar bættist handboltinn við.
Róbert þótti snemma efnilegur og hóf að leika með meistaraflokki 17 ára og það ár var hann valinn í unglingalandslið Íslands bæði í knattspyrnu og handknattleik, en valdi síðan fótboltann. Róbert var hluti af meistaraliðum Víkings í fótbolta 1981 og 1982 og á leiki með A-landsliðinu og 21 árs landsliðinu. Vegna ítrekaðra meiðsla þurfti Róbert að hætta knattspyrnuiðkun með Víkingi 25 ára, en lék með og þjálfaði lið HSÞ b í Mývatnssveit í nokkur ár.
Þegar Róbert og fjölskylda fluttu á ný suður yfir heiðar árið 1992 hóf hann þegar að rækta tengslin við gamla félagið. Hann var kosinn í stjórn knattspyrnudeildar og var formaður hennar 2005-2008. Róbert sat í stjórn Knattspyrnusambands Íslands í alls tíu ár. Frá árinu 2017 hefur Róbert verið eftirlitsmaður á leikjum á vegum Evrópska knattspyrnusambandsins (UEFA).
Sigurbjörn Björnsson
Sigurbjörn Björnsson er fæddur í Reykjavík 1953, en ólst upp í Keflavík til 10 ára aldurs. Hann lék með KR í fótbolta í yngstu flokkum og var síðan í hópi stofnenda Gróttu. Sigurbjörn er menntaður læknir og er sérfræðingur í lyf- og öldrunarlækningum. Hann starfaði sem læknir yngri landsliða kvenna í knattspyrnu í fjölmörgum verkefnum og einnig á leikjum kvennaliðs Víkings.
Eiginkona Sigurbjörns er Svava Björnsdóttir og hann kom sem KR-ingur inn í Víkingsfjölskylduna í Ásgarði, sem áður var minnst á. Ekki tók langan tíma að henda hvítu röndinni út og setja þá rauðu í staðinn og í áratugi hefur Sigurbjörn verið gegnheill Víkingur. Róbert Agnarsson svili hans orðaði það svo að Sigurbjörn hafi svo lengi sem elstu menn muna unnið sleitulaust að uppbyggingu kvennaknattspyrnunnar í Víkingi.
Einnig voru veitt Silfur og Gull merki Víkings ásamt Lárviðarsveig Víkings. 19 aðilar hlutu Silfurmerki Víkings, 8 aðilar Gullmerki og 4 aðilar hlutu Lárviðarsveig Víkings.
Knattspyrnufélagið Víkingur óskar þeim öllum til hamingju með heiðurinn.