fbpx

Tara Jónsdóttir valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna 2022

9. nóvember 2022 | Knattspyrna
Tara Jónsdóttir valin besti leikmaður meistaraflokks kvenna 2022

Tara Jónsdóttir var á uppskeruhátíð knattspyrnudeildar valin besti leikmaður meistaraflokks af stjórn og besti leikmaður utan sem innan vallar af samherjum sínum í liðinu. Hún fetar þar spor sex leikmanna sem áður hefur hlotnast sá heiður að taka báða bikarana á sama ári, í 21 árs sögu þeirra. Það er þeirra Lidiju Stojkanovic 2007, Berglindar Bjarnadóttur 2009, Sólveigar Þórarinsdóttur 2011, Ellenar Bjarnadóttur 2012, Tinnu Óðinsdóttur 2013 og Ingunnar Haraldsdóttur 2016.

Verðlaunin, „Besti leikmaður utan sem innan vallar“ og byggja eins og að framan segir á vali leikmann meistaraflokks og er veitt í minningu Láru Ingibjargar Fanneyjar Herbjörnsdóttur (1922-2012), driffjöður í starfi kvennaflokka Víkings á árum áður og þá sérstaklega á upphafsárum meistaraflokks í upphafi níunda áratugs síðustu aldar. Verðlaunin eru veitt þeim leikmanni sem þykir vera „límið“ í liðinu og mikilvægust í því að halda uppi góðum liðsanda utan sem innan vallar, með Víkings-hjartað á réttum stað! „Besti leikmaður“ er eins og nafnbótin gefur til kynna besti og mikilvægasti leikmaður inni á vellinum þegar tímabilið er gert upp í heild.

Tara hefur frá blautu barnsbeini spilað með yngri flokkum Víkings og unnið til fjölda verðlauna með liðinu. Hún varð Íslands- og Reykjavíkurmeistari með 4. fl. 2015, Íslands- og Reykjavíkurmeistari með 3.fl. 2016, Íslands-, Bikar- og Reykjavíkurmeistari með 3.fl. 2017. Þá varð hún Reykjavíkur- og Faxaflóameistari með 2. fl. HK/Víkings 2017 og silfurverðalaunahafi með liðinu á Íslandsmótinu 2019. Tara var valin efnilegasti leikmaður 2. fl. árið 2018.

Tara lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki á Reykjavíkurmóti í upphafi árs 2019 og var það ár í leikmannahópi HK/Víkings í efstu deild. Hún hefur svo verið í lykilhlutverki með sjálfstæðu liði Víkings síðustu þrjú tímabil, þar sem liðið hefur gert stigvaxandi atlögu að sæti á meðal þeirra bestu. Hún var leikjahæst allra leikmanna á síðasta tímabili. Tara var valin efnilegasti leikmaður mfl. árið 2020 og nú tveimur árum síðar besti leikmaður liðsins.

Á meðfylgjandi myndum má sjá Töru í nokkrum leikjum með mfl. síðastliðin fjögur ár.

Hamingju óskir til þín og þinna, Tara Jónsdóttir