Mikill hugur í Víkingshjólurum
14. júní 2021 | HjólreiðadeildSumarstarf hjólreiðadeildar Víkings hófst af fullum krafti núna í apríl. Hjólreiðamenn og konur í mikilli eftirvæntingu, hleyptu fákum sínum af öllum tegundum út á götur Höfuðborgarsvæðisins, á stíga Heiðmerkur og víðar sem hjólastíga er að finna.
Í byrjun maí var svo haldin vinavika þar sem félegar buðu vinum og kunningjum að mæta á æfingar og voru fjölmargir sem þáðu boðið og einhverjir sem ílengdust og urðu fullgildir félagar. Hópurinn hittist formlega 3 – 4 sinnum í viku og skal það ítrekað að breidd hópsins er mikil en samt sem áður fá allir félagar æfingar við sitt hæfi – í hópnum núna eru 106 hjólreiðamenn.
Keppnistímabilið í hjólreiðum hófst eins og venjulega á Reykjanesmótinu í byrjun maí og þar voru fjölmargir Víkingar sem tóku þátt og einhverjir sem nældu sér í verðlaunasæti. Svo má nefna tímatöku- og Criterium mótin, sem hafa verið nokkur en þau eru harðar og snarpar viðureignir á styttri vegalengdum og/eða á afmörkuðum svæðum og þar létu Víkingar sig ekki vanta heldur. Þann 22. maí höfðu Víkingar og UMFG svo veg og vanda af Suðurstrandarmótinu, sem er hluti af bikarmótaröð HRÍ. Mótið gekk glimrandi vel í alla staði í ágætis veðri. Þar mættu rúmlega 120 keppendur í öllum flokkum. Þess má geta að 12 Víkingar tóku þátt í mótinu og 4 þeirra náðu verðlaunasæti, fjöldi Víkinga stóð einnig vaktina í tengslum við undirbúning og framkvæmd mótsins og fá þeir sérstakar þakkir fyrir vasklega framgöngu.
Víkingar tóku einnig þátt í XCO móti í fjallahjólreiðum og Mývatnshringnum fyrir norðan.
Nú hjólum við áfram inn í sumarið og njótum hjólreiðanna.