Matthías Vilhjálmsson leggur skóna á hilluna

Kæru Víkingar, Matthías Vilhjálmsson leikmaður meistaraflokks, hefur ákveðið að leggja skóna á hilluna í lok tímabils. Ferill hans telur rúmlega 20 ár og hefur Matthías unnið 5 Íslandsmeistaratitla, 3 Bikarmeistaratitla á Íslandi, 4 Noregsmeistaratitla, og 3 Bikarmeistaratitla í Noregi og í heildina eru titlarnir 22 þegar allt er talið saman.

Matthías byrjaði meistaraflokksferilinn hjá BÍ (Boltafélagi Ísafjarðar) árið 2002 og færði sig síðan til FH þar sem hann lék listir sínar áður en hann fór í atvinnumennskuna erlendis. Colchester United, Start, Rosenborg og Vålerenga voru áfangastaðirnir áður en hann sneri heim árið 2021 og gekk aftur til liðs við FH. Við hér í Hamingjunni fengum svo að njóta þess að hafa Matthías með okkur í liði frá árinu 2023 en Matthías gekk til liðs við Víking í byrjun þess árs. Það þarf enginn Víkingur að fá fræðslu í því hver Matthías Vilhjálmsson er og hvað hann hefur gert fyrir okkur Víkinga en hann verður Íslandsmeistari árin 2023 og 2025 og sækir Mjólkurbikarinn árið 2023 og verður Meistari Meistaranna árið 2024. Matthías var einnig lykilmaður í velgengni Víkings í Sambandsdeild Evrópu árið 2024 og skoraði m.a. seinna mark okkar í fræknum 2-1 sigri á Panathinaikos á ÚtiHeimavelli Hamingjunnar í Helsinki í febrúar fyrr á þessu ári.

Matthías lék 15 leiki fyrir A-landslið Íslands þar sem hann skoraði 2 mörk og 23 leiki fyrir yngri landsliðin þar sem hann skoraði 4 mörk.

Matthías hefur svo spilað 92 leiki fyrir Víkings hönd og í þeim hefur hann skorað 9 mörk. En kæru Víkingar, þetta er ekki búið. Kveðjustundin verður á laugardag í Hamingjunni og varla er hægt að hugsa sér meira viðeigandi stund en að kveðja Matta þar sem hann lyftir Bestu deildar skildinum í síðasta sinn á ferlinum fyrir framan troðfulla stúku.

Það er því kjörið tækifæri fyrir alla sanna Víkinga að mæta á laugardag í Hamingjuna og fagna með okkar eigin Matthíasi Vilhjálmssyni.

Takk fyrir okkur Matti. Mikið ofboðslega var frábært að fá þig í Hamingjuna ❤️🖤

Aðrar greinar

Forsíðufrétt, Handbolti

Fulltrúar Víkings í æfingahópum yngri landsliða í handbolta!

Lesa nánar
Knattspyrna, Forsíðufrétt

Víkingar í yngri landsliðum!

Lesa nánar
Knattspyrna, Forsíðufrétt

Björgvin Brimi í Hamingjuna!

Lesa nánar
Karate, Forsíðufrétt

Opnar kynningar á Taekwondo á laugardaginn

Lesa nánar
Forsíðufrétt, Handbolti

Frábær velgengni hjá yngri flokkunum okkar í handbolta!

Lesa nánar