
Að tillögu heiðursmerkjanefndar hefur aðalstjórn Víkings samþykkt að útnefna þá Magnús Þorvaldsson, Ólaf Þorsteinsson og Þórð Hjörleifsson heiðursfélaga í Knattspyrnufélaginu Víkingi.
Magnús Þorvaldsson er 75 ára gamall bakarameistari, sem starfaði meðal annars í bakaríinu í Starmýri 2 og í Mosfellsbakaríi. Eiginkona Magnúsar er Þóra Ólöf Þorgeirsdóttir.
Magnús byrjaði í fótbolta í 3. flokki, en fram að því var hann í sveit á sumrin eins og svo mörg börn og unglingar á þessum árum. 17 ára lék Magnús fyrst með meistaraflokki og var valinn í 18 ára landsliðið árið 1968. Íslenska liðið tapaði þá fyrir Svíum í vítaspyrnukeppni í úrslitaleik Norðurlandamótsins á Laugardalsvelli.
Í upphafi ferilsins meiddist Magnús á hægra fæti þannig að hann gat ekki rétt úr löppinni og útlitið var ekki gott. Magnús fékk ráðleggingar frá læknum, til dæmis um að fara í ljós og í sund, en fannst aðferðir þeirra ekki spennandi og lítið hjálpa. Hann greip til þess ráðs að fara út á völl og æfði sig í að sparka með vinstri fætinum í heilt ár. Þetta leiddi til þess að Magnús náði fyrri styrk og rúmlega það og lék ávallt sem vinstri bakvörður eftir þetta.
Alls lék hann 351 leik með meistaraflokki Víkings og hafa ber í huga að leikir voru talsvert færri á þessum árum, heldur en nú er. Magnús var lengi leikjahæstur Víkinga, en fyrir nokkrum misserum sló Halldór Smári Sigurðsson metið. Á ferlinum vann Magnús það afrek að spila yfir 100 meistaraflokksleiki í röð og var aldrei skipt út af í þeim 351 leik sem hann spilaði.
Magnús varð Íslandsmeistari með Víkingi 1981 og 1982, en tæplega 60 ár voru frá því að Víkingar hafði hampað þeim stóra árið 1924. Hann spilaði fyrstu átta Evrópuleiki félagsins, en hætti að leika með meistaraflokki 1984. Á ferlinum lék
Magnús þrjá landsleiki. Hann þjálfaði hjá Víkingi í meira en áratug, mest 3. og 4. flokk, en einnig meistaraflokk karla í eitt ár. Hann hefur einnig þjálfað hjá Fjölni, Njarðvík og Val.
Magnús hefur verið hluti af þeim hógværa hópi sem kallar sig Vitringana í Víkinni og Heimaleikjaráði í fjölda ára og var í hópi Víkinga, sem stofnuðu Veiðifélagið Kjarna fyrir mörgum árum.
Ólafur Þorsteinsson er viðskiptafræðingur frá Háskóla Íslands, fæddur árið 1948. Hann er kvæntur Helgu Jónsdóttur og starfaði Ólafur meðal annars hjá Krabbameinsfélagi Íslands og Háskóla Íslands, auk þess sem hann kenndi nokkra vetur í MR, sínum gamla skóla, undir lok starfsferilsins.
Ólafur er fæddur í miðbæ Reykjavíkur, skammt frá þeim stað þar sem vagga Víkings stóð fyrir hátt í 120 árum síðan. Ólafur var skráður í Víking fimm ára gamall og þegar hann hafði aldur til fór hann með strætó úr miðbænum á æfingar á Víkingssvæðinu við Hæðargarð.
Óli var snemma efnilegur í fótbolta og var í liði 5. flokks sem varð haustmeistari í fótbolta 1959. Þessi sigur markaði tímamót því Víkingur hafði ekki unnið fótboltamót í háa herrans tíð. Um þetta mátti lesa eftirfarandi í Víkingsblaði fyrir jólin 1959: „Árangur 5. flokks A er öllum landslýð þegar kunnur, því með því að vinna Haustmótið, urðu hinir ungu Víkingar eitt helzta efni íþróttadálka blaða og útvarps. Einnig hefur þessi frammistaða ungu Víkinganna orðið til þess að hinir gömlu Víkingar sjást nú brosa aftur, og sjá ástæðu til að bera höfuðið hátt.“ Svo mörg voru þau orð og sannarlega skipti þessi sigur miklu máli á árum þegar titlar uxu ekki á trjánum. Þjáfari þessa liðs var Eggert Jóhannesson.
Eftir góð ár í yngri flokkunum tóku við tíu ár í meistaraflokki og þar var Ólafur meðal annars í Víkingsliðum sem unnu 2. deildina nokkrum sinnum og hann varð bikarmeistari með Víkingi 1971. Þetta var óvæntur sigur og í eina skiptið sem lið úr næstefstu deild í karlaboltanum hefur unnið þennan eftirsótta titil. Hann varð líka Reykjavíkurmeistari 1974 og fetaði þar með í fótspor föður síns, Þorsteins Ólafssonar, tannlæknis, sem var í fararbroddi meðal Víkinga á árunum í kringum 1940. Það ár urðu Víkingar Reykjavíkurmeistarar. Ólafur var í meistaraliðinu á
Reykjavíkurmótinu 34 árum síðar, en hætti að keppa með meistaraflokki þetta ár vegna meisðla sem hann hlaut í leik í Vestmannaeyjum.
Ólafur hefur komið að ýmsum störfum fyrir Viking síðustu áratugina. Hann hefur verið formaður Fulltrúaráðs Víkings í mörg ár, hann hefur setið í Sögunefnd og var í forystu fyrir uppsetningu myndarlegrar sögusýningar Víkings í kjallaranum í Víkinni á 100 ára afmæli félagsins árið 2008.
Þórður Georg Hjörleifsson er sextugur að aldri og sannarlega með Víkingsgen, sonur Hjörleifs Þórðarsonar og Jensínu Magnúsdóttir, en Lillý er meðal heiðursfélaga í Víkingi. Þórður er rafvirkjameistari, kvæntur Emelíu Blöndal.
Þórður æfði fótbolta í Víkingi á yngri árum og byrjaði snemma að renna sér á skíðum í Sleggjubeinsskarði. Hann byrjaði að þjálfa hjá skíðadeildinni 1981 og var yfirþjálfari þar frá 1997 til 2022 eða í 25 ár og sat jafnframt í stjórn skíðadeildar nánast allan þennan tíma.
Ótalin eru margvísleg önnur verkefni fyrir Skíðadeild Víkings, meðal annars sem fararstjóri, mótastjóri og ráðgjafi við hin ýmsu verkefni. Óhætt er að segja að Þórður hafi með starfi sínu lagt traustan grunn að öflugu starfi skíðadeildarinnar. Hann var unglingalandsliðsþjálfari hjá Skíðasambandinu 1995-1998 og átti sæti í Alpagreinanefnd Skíðasambands Íslands 1995 til 2000 og svo aftur frá því fyrr á þessu ári.
Þórður þjálfaði skíðamanninn Hilmar Snæ Örvarsson, sem keppti fyrir hönd Íslands og Víkings á tvennum Ólympíuleikum fatlaðra og tók jafnframt þátt í þremur heimsmeistaramótum fatlaðra. Þeir félagar fóru saman á Ólympíuleikana í Suður-Kóreu 2018 og í Kína 2022.
Þórður sat í aðalstjórn Víkings um tíma og hefur verið einn allra dyggasti stuðningsmaður félagsins frá unga aldri. Hann hefur verið öflugur stuðningsmaður fótboltans í félaginu og meðal annars ferðast út um alla Evrópu til að hvetja knattsyrnulið Víkings til dáða.