fbpx

Lokahóf knattspyrnudeildar 2023

11. október 2023 | Knattspyrna
Lokahóf knattspyrnudeildar 2023
Samsett mynd: Þórhanna Inga

Lokahóf knattspyrnudeildar Víkings var haldið í Hörpunni síðastliðinn laugardag. Þar komu saman leikmenn, þjálfarateymi, stjórn og velunnarar og fögnuðu besta tímabili í 115 ára sögu félagsins. Í tilefni þess voru veitt verðlaun til leikmanna sem þóttu skara framúr á tímabilinu. 

Kvenna- og karlalið Víkings áttu bæði fullkomið tímabil í sumar þar sem karlaliðið varð Íslands- og bikarmeistari og kvennaliðið varð þrefaldur meistarar með sigri í Lengjubikarnum, Lengjudeildinni ásamt því að verða fyrsta kvennaliðið í sögunni til að verða bikarmeistari úr næst efstu deild! 

Leikmaður ársins kosinn af stjórn knattspyrnudeildar & liðfélögum sínum

Birnir Snær átti magnað tímabil með Víkingsliðinu í sumar. Hann spilaði samtals 30 leiki, skoraði í þeim 12 mörk og lagði upp 8 mörk fyrir liðsfélaga sína. Birnir var jafnframt valinn leikmaður ársins í Bestu deildinni af leikmönnum deildarinnar og af Stúkunni á Stöð2 Sport. 

Leikmaður ársins kosinn af liðsfélögum: 

Selma Dögg var að spila sitt fyrsta tímabil fyrir okkur Víkinga í sumar. Selma eignaðist barn fyrir ári síðan og spilaði því ekkert árið 2022. Hún var frábær með Víkingsliðinu í sumar og algjör leiðtogi innan sem utan vallar. Hún spilaði samtals 22 leiki af 24 sem miðjumaður í sumar og skoraði í þeim 5 mörk. 

Leikmaður ársins kosinn af Stjórn: 

Erna Guðrún var einnig að spila sitt fyrsta tímabil í Víkingsbúningnum. Erna Guðrún spilaði samtals 20 leiki og stóð vaktina í vörninni gríðarlega vel og var lykilleikmaður í sumar. Erna Guðrún eignaðist barn fyrir ári síðan og spilaði því ekkert árið 2022. Erna Guðrún átti stórkostlegt tímabil með Víkingsliðinu í sumar og stýrði vörninni eins og sannur leiðtogi. Vefsíðan Fótbolti.net valdi Ernu Guðrúnu leikmann ársins í Lengjudeildinni.

Efnilegasti leikmaður ársins í meistaraflokki karla: 

Danijel Djuric, fæddur árið 2003, var valinn efnilegasti leikmaður ársins en hann átti frábært tímabil í Víkingstreyjunni í sumar. Danijel kom við sögu í 31 leikjum í sumar af 32 og skoraði 11 mörk og lagði upp 8 mörk fyrir liðsfélaga sína. 

Efnilegasti leikmaður ársins í meistaraflokki kvenna: 

Sigdís Eva átti stórkostlegt tímabil en hún er uppalinn í Víking. Þrátt fyrir ungan aldur var hún valinn leikmaður mótsins í Mjólkurbikar kvenna þar sem hún skoraði 8 mörk í 6 leikjum. Sigdís Eva spilaði stórt hlutverk með Víkingsliðinu í Lengjudeildinni þar sem hún skoraði 8 mörk í 15 leikjum. Vefsíðan Fótbolti.net valdi Sigdísi Evu efnilegasta leikmann ársins í Lengjudeildinni.

 

Birnir Snær, leikmaður ársins kosið af stjórn
Erna Guðrún, leikmaður ársins kosið af stjórn
Birnir Snær & Erna Guðrún, leikmenn ársins kosið af stjórn
Selma Dögg, leikmaður ársins kosið af liðsfélögum
Birnir Snær, leikmaður ársins kosið af liðsfélögum
Birnir Snær & Selma Dögg, leikmenn ársins kosið af liðsfélögum
Sigdis Eva, efnilegasti leikmaður ársins
Danijel Djuric, efnilegasti leikmaður ársins
Danijel Djuric & Sigdís Eva, efnilegustu leikmenn ársins
Allir verðlaunahafar saman