Kæru Víkingar. Undanfarna mánuði og ár hefur Viðburðaráð Knattspyrnudeildar Víkings staðið í stórræðum við framkvæmdir á ýmsum rýmum víðsvegar um Hamingjuna okkar. Þau ykkar sem hafa komið á Heimavöll Hamingjunnar síðasta árið eða svo hafið séð einhverjar af þessum frábæru breytingum með eigin augum.
Í gær, föstudaginn 9.maí, var svo stórum áfanga náð en þá var Lárustofa loksins fullkláruð, fyrir utan eitt – gefa þurfti rýminu nafnið sitt formlega. Fjölskylda og vinir Láru ásamt fólki víðs vegar úr starfi Víkings voru á staðnum þegar Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar hélt ræðu til að minnast Láru Herbjörnsdóttur og hennar framlags til félagsins. Sverrir Geirdal, varaformaður Knattspyrnudeildar hélt einnig stutta tölu og hengdi upp Víkingstreyju á þvottasnúru sem mun hanga um ókomna tíð í Lárustofu.
Að neðan má sjá myndir frá þessari fallegu stund í Lárustofu þar sem einstakri félagskonu var minnst. Knattspyrnudeild Víkings býður Lárustofu hjartanlega velkomna í Hamingjuna. ❤️🖤
Hér má sjá textann sem fylgdi myndunum sem Viðburðaráð Víkings lét framleiða og hengja upp í Lárustofu.
Lára „Amma Vikingur“ Herbjörnsdóttir – 03.01.1922 -27.10.2012
Lára samt Ásgeiri Ármannssyni (21.02.1921-02.02.2007), eiginmanni sínum, voru ávallt nefnd í einu orði sem Ásgeir og Lára eða Lára og Ásgeir i félagsstarfi Vikings og störfum fyrir félagið, hvort sem um var að ræða búningaþvott eða stjórnarstörf. Þau fylgdust ætíð með leikjum í öllum aldursflokkum og kunnu skil á nöfnum og högum leikmanna, og deildu með þeim gleði og vonbrigðum, allt eftir því hver úrslit leiksins voru.
Lára var aðalhvatamaður og fyrsti formaður kvennadeildar Víkings árið 1973. Kvennadeildin starfaið í mörg ár af miklum krafti og sinnti fjáröflun og auknu félagsstarfi kvenna í félaginu.
Lára var tilnefnd sem heiðursfélagi Vikings árið 2004.