Kári Árnason Íþróttamaður Víkings 2021
30. desember 2021 | Knattspyrna, FélagiðKári Árnason leikmaður knattspyrnuliðs Víkings og fyrrverandi landsliðsmaður var valinn íþróttamaður Víkings árið 2021. Kári spilaði 23 leiki í deild og bikar í sumar og fór fyrir liðinu þegar það varð bæði Íslands- og Bikarmeistari. Það er afrek sem aðeins fimm íslensk knattspyrnulið hafa afrekað. Kári skoraði eitt mark í sumar, en það mark kom í bikarúrslitaleik gegn ÍA sem var síðasti leikur Kára fyrir Víking.
Kári var valinn besti leikmaður Víkings af bæði leikmönnum og stjórn knattspyrnudeildar á lokahófi deildarinnar.
Kári er uppalinn Víkingur og hefur ekki farið leynt með ást sína á uppeldisfélagi sínu. Samtals spilaði Kári 118 leik fyrir meistaraflokk Víkings, en á glæsilegum atvinnumannaferli þar sem Kári spilaði m.a. í Englandi, Skotlandi, Tyrklandi og Svíþjóð spilaði Kári 477 leiki og skoraði 26 mörk.
Undanfarin ár hefur Kári spilað lykilhlutverk í landsliði Íslands og skráð sig á spjöld sögunnar sem besti miðvörður sem klæðst hefur íslensku landsliðstreyjunni. Með Kára í liðinu komst Ísland bæði á Evrópumótið og Heimsmeistarakeppnina. Kári spilaði 90 landsleiki fyrir Ísland og skoraði 6 mörk fyrir þjóð sína. Þess má geta að Kári var einnig valinn knattspyrnumaður ársins af KSÍ.
Aðrir sem tilnefndri voru í kjörinu:
• Borðtennis – Nevena Tasic
• Handknattleikur – Jóhannes Berg Andrason
• Hjólreiðar – Jón Arnar Sigurjónsson
• Skíði – Hilmar Snær Örvarsson
• Tennis – Egill Sigurðsson