Jovan Kukobat, Benedikt Elvar og Jón Hjálmars til liðs við Víking
9. ágúst 2021 | HandboltiHandknattleiksdeild Víkings hefur samið við þrjá leikmenn fyrir komandi tímabil í Olísdeildinni.
Jovan Kukobat er 33 ára markmaður frá Serbíu. Jovan lék fyrst með KA á Akureyri 2012 í nokkur tímabil eða þangað til hann hélt til Ísraels í áframhaldandi atvinnumennsku. Hann snéri svo aftur norður til Akureyrar og hefur leikið bæði með KA og Þór síðan 2018. Það þarf ekki að fjölyrða um gæði hans sem markmanns enda sýnt sig og sannað undanfarin ár með um 35% meðalmarkvörslu í efstu deild. Það er ljóst að Víkingur mun geta stillt upp góðu markmannspari á komandi tímabili í Olísdeildinni.
Benedikt Elvar Skarphéðinsson er 21 árs rétthentur útileikmaður sem er uppalin í FH. Hann hefur undanfarin þrjú tímabil leikið í Olísdeildinni og er gríðarlega öflug viðbót í okkar hóp. Benni er frábær leikmaður sem getur bæði leyst skyttu- og miðjustöðuna. Það er ánægulegt að Benedikt hafi ákveðið að ganga til liðs við Víking frá sínu uppeldisfélagi en þjálfarateymið okkar telur fullvíst að Benni sé einn af þeim leikmönnum sem muni springa út í vetur.
Jón Hjálmarsson snýr heim í Víking og mun efla hægri vænginn okkar. Hinn kraftmikli Jón mun því leika sitt 9 tímabil í Víkingsbúningnum en hann á að baki 137 deildarleiki með Víkingi og skorað í þeim yfir 400 mörk. Jón getur bæði leyst stöðu hægri skyttu sem og hægra horn og mun því nýtast okkur vel í vetur. Í heild á Jón 194 deildarleiki í Úrvals- og fyrstu deild með yfir 700 mörk. Jón passar afar vel inn í hópinn okkar.
Víkingur býður þessum frábæru leikmönnum velkomna í félagið.