fbpx

Hulda Ösp í 100-leikjaklúbb Víkings

11. júní 2024 | Knattspyrna
Hulda Ösp í 100-leikjaklúbb Víkings
f.v. á mynd Heimir Gunnlaugsson formaður knattspyrnudeildar Víkings - Hulda Ösp - Sigurbjörn Björnsson

Hulda Ösp Ágústsdóttir er 22 leikmaður meistaraflokks kvenna til að spila 100 leiki fyrir Víking (HK/Víking).

Hulda gekk til liðs við Víking á miðju sumri 2020 eftir langan og farsælan feril með uppeldisfélagi sínu Völsungi á Húsavík. Þar fór hún upp í gegn um yngri aldursflokka og var enn gjaldgeng í 3.fl. þegar hún lék sinn fyrsta meistaraflokksleik vorið 2014. Alls spilaði hún 76 mfl. leiki fyir Völsung og skoraði í þeim 28 mörk. Hulda var haustið 2018 valin efnilegasti leikmaður liðsins.

Fyrsti leikurinn fyrir Víking kom í Lengjudeildinni 2020, á móti sínum gömlu félögum í Völsungi og spilaði Hulda alls 11 leiki það sumar. Hún hefur alla tíð síðan verið á meðal þeirra leikmanna liðsins sem spilað hafa hvað flesta leiki á hverju tímabili og hefur átt stóran þátt í þeirri velgengni sem Víkingar státa af síðustu ár. Hún varð þrefaldur meistari með liðinu á síðasta sumri, Lengjubikar-, Lengjudeildar- og Mjólkurbikarmeistari og nú í vor hafa tveir titlar bæst við, Reykjavíkurmeistaratitill og titill Meistara meistaranna. Hún spilaði svo sinn fyrsta leik í efstu deild í fyrsta leik tímabilsins og hefur þegar sett sitt fyrsta mark þar, en áður hafði hún skorað 18 mörk fyrir mfl. Víkings.

Hulda hefur lengst af spilað á vinstri kantinum. Hún býr yfir miklum hraða og frábærum fyrirgjöfum sem leitt hafa til ófárra markanna, en hún hefur eins og áður segir líka sett þau nokkur sjálf. Fyrsta markið í Bestu, nú fyrir nokkrum dögum, skoraði hún í uppbótartíma á móti FH og tryggði liðinu þar mikilvæg stig. Mörkin tvö sem hún skoraði undir lok leiks á móti Aftureldingu í fyrra haust voru á endanum ein þau mikilvægustu sem hún hefur skorað, enda tryggðu þau nauðsynlegt stig í baráttunni um meistaratitil Lengjudeildarinnar og sæti í þeirri Bestu! Þá skoraði Hulda  mikilvægt sigurmark í erfiðum leik á móti Fjarðarbyggð/Hetti í fyrra vor, sem þá hélt á lífi draumi um sigur í Lengjubikarnum.

Hulda var heiðruð með blómum fyrir leik Víkings og Keflavíkur, og líkt og þeir leikmenn sem áður hafa komist í hundraðleikjaklúbbinn, með Verðlaunaskildi.

Til hamingju Hulda og megir þú bæta sem flestum leikjum við, á næstu árum!