Freyja Stefánsdóttir framlengir út 2026
1. nóvember 2024 | KnattspyrnaFreyja Stefánsdóttir, sem á sínum tíma var yngst allra Víkinga til að skrifa undir samning við Knattspyrnudeild Víkings hefur nú endurnýjað samninginn út tímabilið 2026.
Vissulega voru ákveðnar væntingar sem fylgdu fyrsta samningnum, en hvern hefði órað fyrir þeim árangri sem hún hefur náð með liðinu, enn aðeins 16 ára gömul. Freyja hefur nú spilað 63 leiki með mfl. og skorað í þeim 12 mörk.
Freyja spilaði sinn fyrsta leik með mfl. á Reykjavíkurmótinu 2023, þá ný orðin 15 ára. Hún varð svo og Lengjubikarmeistari um vorið og hafði þá skorað í báðum mótunum. Hún skoraði svo í fyrsta leik Mjólkurbikarsins og enn önnur tvö, áður en hún kórónaði sigur liðsins í úrslitaleiknum á móti Breiðablik. Sigur í Lengjudeildinni og sæti á meðal þeirra bestu varð svo niðurstaðan um haustið. Í vor varð hún svo Reykjavíkurmeistari og Meistari meistaranna eftir sigur á Val. Hún spilaði upphafsleikinn í Bestu deildinni í sumar og hefði eflaust spilað alla leiki liðsins ef hún hefði ekki meiðst á miðju tímabili. Hún endaði fimmta leikjahæst og skoraði tvö mörk í deildinni, það síðara þegar hún tryggði sigur liðsins á móti Þór/KA í hreinum úrslitaleik um 3. sætið. Glæsilegur árangur það!
Leikirnir 63 setja hana í annað sæti á eftir Emmu Steinsen í spiluðum leikjum tvö síðustu tímabil og í annað sæti á eftir Sigdísi Evu Bárðardóttur, á lista spilaðra leikja með mfl. áður en að hafa náð 17 ára aldri. Hún er nú 54. leikjahæst allra Víkings-kvenna frá upphafi.
Freyja hefur einnig tekið þátt í verkefnum yngri landsliða Íslands. Hún var fyrst valin í æfingahóp U15 árið 2021 og hefur síðan spilað með U16, U17, U18 og U19, alls 16 leiki og hefur í þeim skorað tvö mörk.
Það er af mikilli gleði og hamingju sem Knattspyrnudeild Víkings fagnar nýjum samningi við Freyju Stefánsdóttur.
Á meðfylgjandi mynd fagnar Freyja marki sem hún skoraði í Bikarúrslitaleiknum 2023.