fbpx

Fjölnir – Víkingur | Annar sigurinn í röð í Reykjavíkurmótinu

13. janúar 2024 | Víkingur TV, Knattspyrna
Fjölnir – Víkingur | Annar sigurinn í röð í Reykjavíkurmótinu

Í kvöld mættust Fjölnir og Víkingur í 2.umferð Reykjavíkurmótsins og það má með sanni segja að Víkingar reyndust of stór biti fyrir ungt og sprækt Fjölnislið.

Leikurinn byrjaði á því að Hafdís Bára lagði boltann í netið af stuttu færi eftir góðan undirbúning frá Sigdísi Evu Bárðardóttur. Fjórum mínútum síðar var Sigdís sjálf á ferðinni og kom okkur í 2-0 eftir gott spil út úr vörninni og frábæra sendingu frá Gígju upp í hornið á Emmu sem sendi boltann fyrir og á einhvern ótrúlegan hátt kom Sigdís boltanum í netið.

Á ’13 mínútu leiksins tók Sigdís aukaspyrnu vinstra megin við vítateiginn og skaut í þverslána en Dagný var á réttum stað á réttum tíma og potaði boltanum í netið.

Á ’24 mínútu átti Selma frábæra sendingu upp í hornið á Dagnýju sem lagði boltann fyrir fætur Hafdísar Báru sem getur ekki hætt að skora, 5 markið í 2 leikjum staðreynd og staðan orðin 4-0.

Fimmta og síðasta mark fyrri hálfleiks skoraði Bergdís Sveinsdóttir með þvílíkum draumaskalla. Beint úr efstu hillu, flugskalli eftir frábæra sendingu frá Dagnýju. Í hálfleik var mjög furðulegt að setjast niður og ræða við fólk um að Fjölnisliðið hefði samt staðið sig mjög vel í leiknum og hefði átt að skora 1 ef ekki 2 mörk.

Í hálfleik voru gerðar 3 breytingar, út fóru Dagný, Tara og Hafdís og inn komu Freyja, Hulda og Ólöf.

Bergdís opnaði svo markareikning Víkinga í síðari hálfleik eftir frábæra sendingu frá Ernu. Þetta mark fékk undirritaðan til að standa upp og klappa því Bergdís tók við boltanum með bakinu og lagði svo boltann fram hjá markverði Fjölnis. Einungis 2 mínútum síðar skoraði Freyja Stefánsdóttir eftir frábæran undirbúning frá Huldu sem rauk upp kantinn og átti góða fyrirgjöf á Freyju sem átti þó eftir að gera helling áður en hún gat skotið á markið.

Staðan orðin 7-0 fyrir ógnarsterku Víkingsliði og þarna héldum við að leikurinn myndi róast en á næstu 4 mínútum komu 2 mörk. Fyrst skoraði Erna af harðfylgi eftir horn og svo bætti Freyja við sínu öðru marki eftir frábært samspil hjá Gígju og Bergdísar. Staðan orðin 9-0 og 30 mínútur eftir af leiknum.

John og Kristófer gerðu 2 breytingar til viðbótar á liðinu og inn komu Þórdís og Inga Lilja fyrir Bergdísi og Sigdísi. Þarna kom kafli þar sem meira jafnræði var með liðunum og miklar breytingar búnar að eiga sér stað á leikmönnum og þjálfarateymið skiptu Ernu og Birtu útaf og inn komu Eva María og Karítas Björg.

Á ’72 mínútu átti Emma Steinsen sendingu yfir vörn Fjölnis og af kantinum kom Hulda Ösp á miklum spretti, stakk sér framfyrir varnarmann Fjölnis, potaði tánni í boltann framhjá markverði Fjölnis og lagði boltann í autt markið.

Í stuttu máli þá er augljóst að stelpurnar koma ekki saddar til leiks eftir frábært tímabil í fyrra. Leikform, hlaupaform… allt í topp standi og góð stemning í hópnum. Það sást í áður en leikur hófst, í upphitun, í hálfleik og eftir leik. Létt yfir hópnum og góður andi.

Þegar liðið sem maður heldur með vinnur 10-0 er mögulega erfitt að velja mann leiksins en í dag var það Bergdís Sveinsdóttir sem fær þá nafnbót. Hún átti frábæran leik, skoraði 2 frábær mörk og átti stoðsendingar og bara var maður leiksins. Katla greip inn í þegar þurfti, vörnin var örugg í sínum störfum, miðjan orkumikil og sóknarleikurinn alveg frábær. Ungir leikmenn sem komu inn af bekknum stóðu sig frábærlega og það verður gaman að fylgjast með þeim í sumar.

Næsti leikur hjá stelpunum er heimaleikur gegn KR „under the lights“ föstudaginn 19.janúar kl. 19:00.

Eins og við nefndum nokkrum sinnum í útsendingunni þá erum við Víkingar mjög svo ofdekraðir þegar það kemur að gæðum inni á knattspyrnuvellinum. Við mælum með að kíkja í Hamingjuna á föstudag og sjá þetta með ykkar eigin augum en leikurinn verður samt að sjálfsögðu sendur út í beinni útsendingu á Víkingur TV fyrir þau ykkar sem eigið ekki heimangengt.

Sjáumst í Hamingjunni!

Ps. hér má sjá leikinn í heild sinni.