fbpx

EuroVikes á næstunni

3. nóvember 2024 | Knattspyrna
EuroVikes á næstunni

Meistaraflokkur karla heldur áfram innreið sinni í Evrópu og eftir stórkostlegan sigur gegn Cercle Brugge í lok október eru Borac (FK Borac Banja Luka) frá Bosníu næstir á dagskrá. Lið Borac situr í 3 sæti í bosnísku úrvalsdeildinni og hafa þeir skorað 20 mörk í 11 leikjum og fengið aðeins 5 á sig.

Borac byrjaði Evrópuævintýri sitt með því að slá út Egnatia frá Albaníu í fyrstu umferð undankeppni Meistaradeildar Evrópu og þurfti vítaspyrnukeppni til.  Egnatia þekkjum við Víkingar vel enda slógum við þá út í annarri umferð undankeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Eftir sigurinn gegn Egnatia þann 17.júlí síðastliðinn töpuðu Borac sínu næsta einvígi í undankeppni Meistaradeildarinnar gegn PAOK Thessaloniki FC frá Grikklandi. Eftir þetta tap mættu Borac liði KÍ frá Klaksvík í Færeyjum í þriðju umferð undankeppni Europa League og gerðu Borac sér lítið fyrir og slógu frændur okkar úr keppni með 2-1 tapi í Færeyjum en 3-1 sigur á heimavelli tryggði þeim sæti í umspili um sæti í Europa League þar sem þeir mættu Fenerbache frá Tyrklandi.

Fyrri leikur liðanna fór 0-0 í Tyrklandi og á heimavelli Borac endaði leikurinn 1-1 og þurfti því að grípa til framlengingar og vítaspyrnukeppni. Þar voru Fenerbache sterkari og tryggðu sér sæti í deildarkeppni Europa League og Borac fékk því sæti í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.

Fyrsta umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu reyndist okkur Víkingum erfiðari en Borac því þeir náðu jafntefli á heimavelli gegn gríska stórliðinu Panathinaikos. Á sama tíma spiluðum við Víkingar við Omonia frá Kýpur og endaði sá leikur 4-0 fyrir gestgjöfunum.

Í annarri umferð deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu náðum við Víkingar í glæsilegan 3-1 sigur gegn Cercle Brugge á heimavelli en á meðan gerðu Borac vel og sóttu 0-1 sigur gegn APOEL Nicosia á Kýpur.

Fyrir leik Víkings og Borac í þriðju umferð deildarkeppni Sambandsdeildarinnar er staðan í deildinni á þá leið að Borac situr í 11.sæti með 4 stig og Víkingur í 22.sæti með 3 stig. Efstu 8 liðin fara beint í 16 liða úrslit, en liðin í sætum 9-24 fara í umspil um að komast í 16 liða úrslit. (sjá töfluna neðst í frétt).

Það er því alveg ljóst hvað sigur gegn Borac gerir fyrir #EuroVikes drauma okkar Víkinga og til þess að eiga sem bestan möguleika á sigri þurfum við fulla stúku. Miðasala á leik Víkings og Borac er í fullum gangi á Stubb. Smelltu hér til að kaupa miða.

Að lokum bendum við Víkingum á að taka eftirfarandi dagsetningar frá en alls eru 4 leikir eftir til jóla í deildarkeppni Sambandsdeildar Evrópu.