fbpx

Erna Guðrún & Selma Dögg semja við Víking

19. desember 2022 | Knattspyrna
Erna Guðrún & Selma Dögg semja við Víking
Samningar undirritaðir við Ernu Guðrúnu Magnúsdóttur og Selmu Dögg Björgvinsdóttur 

Víkingum hefur bæst öflugur liðsauki, en þær Erna Guðrún Steinsen Magnúsdóttir og Selma Dögg Björgvinsdóttir hafa skrifað undir samninga til tveggja ára við félagið en þær koma báðar frá FH. Báðar eru þær að koma til baka eftir barnsburð og hlé frá knattspyrnuiðkun á liðnu sumri en tilbúnar að takast á við nýjar áskoranir með Víkingum. 

Þær eru jafnöldrur, fæddar 1997, og hafa lengi spilað með FH. Guðrún Erna allt frá barnæsku en Selma Dögg frá því í 2.fl., en hún byrjaði sinn knattspyrnuferil í Val. 

Guðrún Erna er eins og áður segir uppalin FH-ingur og hefur spilað með þeim upp í gegnum alla yngri flokka félagisins og haldi tryggð við félagið alla tíð í þeim ólgusjó sem FH-ingar líkt og Víkingar (HK/Víkingar) hafa mátt berjast í á milli deilda undanfarin ár. Hún lék sinn fyrst leik fyrir mfl. árið 2013, þá 16 ára gömul og hefur nánast átt fast sæti í liðinu frá 2014 og verið fyrirliði þeirra frá miðju sumri 2017. Hún á skráðan 131 leik á Íslandsmóti, þar af 79 í efstu deild og alls 197 leiki í meistaraflokki. Hún hefur í þeim leikjum skorað alls 11 mörk, lengst af sem miðvörður, þá á hún alls 6 leiki með um yngri landslið Íslands, U16 og U17. 

Þetta er í fyrsta skipti sem ég sem annað lið en mitt uppalda félag og er ég mjög ánægð að það sé Víkingur. Liðið, þjálfarateymið og aðstaðan líta mjög vel út. Ég er virkilega spennt fyrir næstu 2 árum með Víking sem verður ekkert nema stuð og gaman.

Erna Guðrún, nýr leikmaður Víkings

Selma Dögg hóf sinn feril með Val og spilaði með þeim upp í gegnum yngri flokka, eða allt þar til hún skipti yfir í FH árið 2015. Selma Dögg spilaði sinn fyrsta leik í mfl. fyrir Val árið 2013 og bætti svo við alls 17 leikjum áður en hún skipti yfir í FH. Hún spilaði sinn fyrsta leik fyrir mfl. FH 2015 og átti nær fast sæti í liðinu frá fyrstu tíð eða allt fram á mitt sumar 2017 en varð þá frá að hverfa, þegar hún gekk með sitt fyrst barn. Hún tók skóna fram aftur sumarið 2018 og spilaða framan af sumri með FH en skipti tímabundið yfir í Val síðla sumars, en hefur verið á mála hjá FH allar götur síðan. Selma Dögg á alls skráða 150 leiki fyrir meistaraflokka FH og Vals og þar af 49 leiki í efstu deild. Hún hefur lengst af spilað á miðjunni og hefur skorað 11 mörk. Hún á 3 leiki með U16.  

Ég bý í næsta húsi við Víkina þannig að þetta var aldrei spurning um hvort heldur hvenær. Liðið hefur verið á góðri siglingu síðastliðin ár og augljóst að markmiðin séu háleit þannig ég er meira en til í að taka þátt í þeirri veislu. Svo er Sölvi ekkert eðlilega ánægður með að Víkingur hafi orðið fyrir valinu hjá mér, þannig að þetta er allt saman bara eintóm gleði.

Selma Dögg, nýr leikmaður Víkings

Erna Guðrún og Selma Dögg koma til með að styrkja þann frábæra hóp sem Víkingar hafa nú á að skipa eru þær boðnar sérstaklega velkomnar og fylgja þeim hamingjuóskir með nýja samninga.

Selma Dögg, John Andrews & Guðrún Erna