fbpx

Emmu Steinsen Jónsdóttir semur við Víking | Fótbolti

22. mars 2022 | Knattspyrna
Emmu Steinsen Jónsdóttir semur við Víking | Fótbolti
Emma Steinsen

Gengið hefur verið frá samningi við Emmu Steinsen Jónsdóttur (2003)
Emma byrjaði ung að spila með Val og lék með félaginu upp í gegn um alla yngri flokka. Hún spilaði iðulega „upp fyrir sig“ og þá gjarnan með tveimur flokkum í einu en hún á jafnframt nokkra leik í drengjaliði félagsins. Hún vann til fjölda titla og ef ekki hefði verið fyrir frábæra yngri flokka Víkings á sama tíma hefðu titlarnir kannski orðið fleiri!

Hún varð Íslandsmeistari með 4. fl. 2016 og í 3. fl. 2018 og bikarmeistari með 2. fl. 2019. Auk þess að verða Reykjavíkurmeistari með 4. fl. 2017 og Reykjavíkur- og Faxaflómameistari með 3. fl. 2019. Emma á sex leiki með U16 landsliði Íslands, en hún tók þátt í undankeppni Evrópumótsins og Norðurlandamótinu 2019, ásamt því að spila einn leik með U17 það sama ár. Í byrjun árs 2020 gekk Emma til liðs við Gróttu og spilaði með þeim sinn fyrsta leik í meistaraflokki. Hún átti fast sæti í liðinu sem gerði vel í Lengjudeildinni þá um sumarið, en liðið hafði komið upp úr 2. deild sumarið áður.

Hún skipti svo yfir í Val um haustið og spilaði einn leik með þeim vorið 2021, áður en hún gekk til liðs við Fylki. Með Fylki spilaði hún svo sinn fyrsta leik í Pepsí-Max-deildinni. Hún skipti aftur yfir í Gróttu síðar það sumar og lék með þeim út tímabilið. Alls á Emma 31 leik í öllum mótum í mfl., með Gróttu, Val og Fylki og hefur nú bætt við 8 leikjum á undirbúningstímabilinu með Víkingum. Á þessu ári hefur Emma verið valin í æfingahóp U-19 ára landsliðsins.

Það er gríðarlega mikill fengur fyrir Víkinga að fá til liðsins jafn leikreyndan ungan leikmann sem Emma er og er hún boðin velkomin til liðs við félagið.