Emma Steinsen í 100 leikja hópinn
24. janúar 2025 | KnattspyrnaEmma Steinsen Jónsdóttir spilaði sinn hundraðasta leik á móti Þrótti í Reykjavíkurmótinu föstudagskvöldið 17. janúar og var af því tilefni heiðruð fyrir leik.
Emma gekk til liðs við Víking haustið 2021 en hún hafði þá um tveggja ára skeið leikið með Gróttu. Emma spilaði reyndar sína fyrstu meistaraflokksleiki með uppeldisfélaginu Val áður en hún var lánuð til Gróttu 2020. Hennar fyrsti leikur í efstu deild kom þó á láni hjá Fylki á milli tímabilanna hjá Gróttu. Samanlagt hafði hún spilað 31 meistaraflokksleik fyrir þessi félög áður en hún gekk til liðs við Víking.
Emma var fljót að sanna sig hjá Víkingum og hefur átt fast sæti í liðinu frá upphafi. Fyrsta árið, 2022, spilaði hún alla leiki liðsins utan þriggja og þar af allar leikmínúturnar í deild og bikar. Annað árið, 2023, spilaði hún alla leikina utan tveggja og á síðasta ári, hvern einasta leik og vantaði þá einungis tæpa klukkustund upp á, til að hafa spilað allar leikmínútur allra leikja tímabilsins. Það þarf líklega ekki að taka það fram að á þessum þremur árum var hún langleikjahæst og enginn leikmaður liðsins hefur áður náð þessum leikjafjölda jafn hratt, og þarf væntanlega að grafa djúpt til að finna viðlíka dæmi í íslenskum kvennabolta. Gígja Valgerður hafði áður verið fljótust Víkingskvenna í 100 leiki, en leikirnir hennar fyrstu þrjú árin voru samt 20 færri en Emmu! Leikirnir voru þannig 98 af alls 103 leikjum liðsins þessi þrjú tímabil og tveir hafa nú bæst við í upphafi þessa árs.
Emma hefur átt mikilli velgengni að fagna með Víkingum undanfarin þrjú ár og titlarnir fjölmargir á þeim tíma. Stiklað á stóru má þó segja að Mjólkurbikarmeistaratitillinn 2023 og þriðja sætið í Bestu 2024 standi upp úr, en Lengjudeildarmeistaratitilinn 2023 og Meistarar meistaranna 2024 fylgja þó fast á eftir. Emma hefur á þessum tíma of verið valin í lið umferða og tímabilið 2023 var hún valin í úrvalslið Lengjudeildarinnar af Fotbolti.net. Emma hefur nær allan tímann spilað sem hægri bakvörður, þó að hún hafi í einstaka tilfellum tekið aðrar stöður og þar á meðal þurft að bregða sér í markið. Hún er mjög hröð og sprettir hennar upp kantinn og flottar fyrirgjafir hennar hafa skilað fjölda marka. Einn slíkur spretturinn er þó öðrum minnisstæðari, enda skilaði hann marki í úrslitaleiknum á Laugardalsvellinum.
Emma á líka fjölda leikja með yngri landsliðum, en hún á samtals átta leiki með U16, U17 og U19 og hefur á síðustu misserum tekið þátt í verkefnum 23 ára landsliðsins og spilað með því alls fjóra leiki.
Fyrst til að ná 100 leikja áfanganum var Ellen Bjarnadóttir, árið 2007, og síðan hafa ein til tvær bæst við flest árin, en með betri árangri liðsins og þar með auknum leikjafjölda má þó búast við að leikjunum eigi eftir að fjölga aðeins hraðar næstu árin. Í dag eru fyrir 5 stúlkur í meistaraflokkshópnum komnar í 100 leikja klúbbinn og viðbúið að tvær eða þrjá bætist í þann hóp síðar á árinu.
Víkingar óska Emmu innilega til hamingju með áfangann og vænta mikils af henni á komandi árum.