Davíð Örn og Karl Friðleifur ganga til liðs við Víking
26. nóvember 2021 | KnattspyrnaÍslands- og bikarmeistarar Víkings tilkynna með mikilli ánægju að Davíð Örn Atlason og Karl Friðleifur Gunnarsson eru komnir heim í Víkina til frambúðar. Þeir koma báðir til liðsins frá Breiðablik en eiga báðir miklar og sterkar tengingar við Víking.
Davíð Örn Atlason er öllum Víkingum kunnugur, enda uppalinn og gegnheill Víkingur sem lék 196 leiki fyrir Víking áður en hann var keyptur til Breiðabliks fyrir ári síðan. Hann varð bikarmeistari með Víkingi árið 2019 og var einn af lykilmönnum liðsins. Davíð kemur nú heim í Víkina til Íslands- og bikarmeistara Víkings og bætist þannig við afar sterkan leikmannahóp félagsins.
Karl Friðleifur Gunnarsson varð Íslands- og bikarmeistari með Víkingi á liðnu tímabili, en þá var hann hjá liðinu á láni frá Breiðabliki. Karl Friðleifur hefur einnig leikið með Gróttu í efstu deild, þar sem hann var á láni tímabilið 2020. Karl stóð sig prýðilega með Víkingum á liðnu tímabili og hefur ekki farið í grafgötur með það hversu mikill Víkingur hann er orðinn. Það er því mikið fagnaðarefni að fá þennan sterka og spennandi leikmann heim í Víkina til frambúðar.
Stjórn Knattspyrnudeildar Víkings býður Davíð og Karl Friðleif velkomna heim.