fbpx

Brynhildur, nýr meðlimur í 100 leikja klúbb Víkings og HK/Víkings

6. apríl 2022 | Knattspyrna
Brynhildur, nýr meðlimur í 100 leikja klúbb Víkings og HK/Víkings
Brynhildur Vala leikmaður Víkings

Brynhildur Vala náði áfanganum í leik austur á Reyðarfirði, þar sem Víkingar spiluðu við Fjarðarbyggð/Hött/Leikni í Lengjubikarnum fyrr í vor. Hún var svo heiðruð fyrir leik á móti HK í sömu keppni þann 30. mars s.l. Brynhildur Vala er sú nítjánda í röðinni til að ná þessum leikjafjölda og kemur sér þar í hóp okkar fremstu leikmanna.

100 leikja klúbbur meistaraflokks kvenna, Víkings og HK/Víkings

Brynhildur Vala, sem fædd er 2001, lék með sigursælu liði Víkings upp í gegnum alla yngri flokka. Hún var fyrirliði 4. fl. sem varð Reykjavíkur- og Íslandsmeistari 2015, fyrirliði 3. fl. sem varð Reykjavíkur- og Íslandsmeistari 2016 og fyrirliði 3. fl. sem varð Reykjavíkur-, bikar- og Íslandsmeistari 2017. Þá varð hún Reykjavíkur- og Faxaflóameistari með 2. fl. HK/Víkings 2017 og Lengjubikarmeistari C-liða með mfl. HK/Víkings 2019. Brynhildur Vala var vel liðtæk í handbolta á árum áður og varð m.a. Íslands- og Bikarmeistari með 4. fl. Víkings 2016.

Brynhildur Vala lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki HK/Víkings í byrjun árs 2017 og varð deildarmeistari með liðinu þegar það tryggði sé sæti í Pepsí-deildinni síðar það sumar. Hún spilað svo sína fyrstu leiki í efstu deild sumarið 2018 þegar liðið tryggði áframhaldandi þátttöku á meðal þeirra bestu. Hún spila einnig fjölda leikja með 2. fl. það sumar og var í lok tímabilsins valin besti leikmaður 2.fl. Sumarið 2019 spilaði HK/Víkingur áfram í efstu deild og var Brynhildur þá fjórði leikjahæsti leikmaður liðsins með alls 28 leiki.

Brynhildur Vala tók við fyrirliðabandi Víkings í upphafi árs 2020, eftir að áralöngu og farsælu samstarfi við HK hafði verið slitið haustið áður. Hún var þannig fyrsti fyrirliði sjálfstæðs liðs mfl. Víkings allt frá því liðið tefldi síðast fram liði í meistaraflokki árið 1985. Hún spilaði með liðinu fram á haust en gekk þá til liðs við háskólaliðið Old Dominion University á styrk til náms líkt og fjöldi leikmanna Víkings hefur nýtt sér á undanförnum árum. Hún kom svo heim sumarið eftir og hefur spilað með Víkingum síðan.
Brynhildur Vala á alls 50 leiki á Íslandsmóti og þar af 17 í efstu deild, hina leikina 51 hefur hún spilað í Mjólkurbikar, Lengjubikar, Reykjavíkur- og Faxaflóamótum, alls 101 leik.

Víkingar óska Brynhildi Völu innilega til hamingju með áfangann og megi leikjunum fjölga sem mest á komandi árum.

Brynhildir Vala ásamt Heimi Gunnlaugs formanni knattspyrnudeildar