Bjarni Guðnason, heiðursfélagi Víkings lést 27 október.
7. nóvember 2023 | FélagiðBjarni Guðnason, prófessor í íslenskum bókmenntum fyrri alda við Háskóla Íslands og heiðursfélagi í Víkingi, ést 27. október síðastliðinn, 95 ára að aldri.
Bjarni Guðnason var alla tíð mikill Víkingur og fylgdist grannt með gengi félagsins. Á förnum vegi spurði hann ævinlega á sinn sérstaka hátt um stöðu mála og gladdist innilega yfir árangri síðustu ára á knattspyrnuvellinum. Varð mæðulegur ef illa gekk.
Í samtali í Víkingsbókinni, Áfram Víkingur, 1983, segir Bjarni meðal annars um aðdragandann að því að hann varð Víkingur tíu ára gamall: „Ég átti heima á Stýrimannastígnum, sem var í viðurkenndu KR-hverfi, en einstaka villihestar gengu til liðs við önnur félög. Ég óx úr grasi á þeim árum er drengir áttu einar buxur, voru alltaf í gúmmískóm og knattspyrna var leikin í portum og húsasundum…
Þarna í nágrenninu bjó heldri maður, sem átti marga skó og margar buxur, Kristján sonur Steindórs bíla. Hann átti marga bolta og hafði aðgang að bílum föður síns. Einhverju sinni bauð hann mér í ökuferð austur á Þingvöll, sem var mikið ævintýri og meira heldur en að skreppa til Evrópu nú á dögum. Þetta atlæti Kristjáns gerði mig að Víkingi og hef ég verið Vikingur alla tíð síðan.“
Fyrir Bjarna og aðra Víkinga af hans kynslóð var það ekki tekið út með sældinni að styðja félagið á hverju sem gekk og sannarlega mundi hann tímana tvenna i baráttu Víkings. Bjarni átti þó tvær medalíur frá fótboltaárunum í kringum 1950, aðra fyrir sigur í vormóti, hina fyrir sigur í haustmót. Sá stóri lét hins vegar biða eftir sér og Víkingur vann ekki sigur á Íslandsmóti í meistaraflokki karla í 57 ár, frá árinu 1924 til 1981.
Bjarni var afreksmaður í íþróttum á sínum yngri árum og lék 1951-1953 fjóra landsleiki i fótbolta. Hann lék einnig með úrvalsliðum í handbolta. Sinn fyrsta landsleik lék Bjarni á Melavellinum 29. júní 1951 og það var sannarlega sögulegur sigurdagur í íslenskum íþróttum. Sigur vannst á Svíum, 4-3, í fótboltanum og skoraði Ríkharður Jónsson öll mörk Íslands. Sama dag vannst einnig sigur í landskeppni í frjálsum íþróttum gegn Dönum og Norðmönnum.
Haustið 1991 tók Bjarni að sér við þriðja mann að finna nafn á Víkingssvæðið í Fossvogi. Þremenningarnir lögðu til við aðalstjórn að aðstaðan á félagssvæðinu yrði annaðhvort nefnd Vík(in) eða Virki(ð). Víkin varð fyrir valinu og þar hafa Víkingar æft vopnfimi sína síðustu áratugi.
Bjarni var gerður að heiðursfélaga í Víkingi árið 2010. Blessuð sé minning Bjarna Guðnasonar.
F.h. Knattspyrnufélagsins Víkings, Ágúst Ingi Jónsson.