Birta Birgisdóttir og Jóhanna Lind semja við Víking
16. janúar 2023 | KnattspyrnaEnn bætist í öflugan hóp meistaraflokks kvenna, en gengið hefur verið frá félagaskiptum þeirra Birtu Birgisdóttur (2003) Jóhönnu Lindar Stefánsdóttur (2001) yfir í Víking. Þær búa báðar að töluverðri reynslu í meistaraflokki og hafa verið iðnar við markaskorun fyrir sín fyrri lið.
Jóhanna Lind sleit fyrstu fótboltaskónum austur á Neskaupsstað og spilaði með Þrótti upp í gegn um alla yngri flokka. Hún gekk síðar til liðs við sameiginlegt lið Fjarðarbyggðar og enn síðar til liðs við Fjarðarbyggð/Hött/Leikni og spilaði með þeim sinn fyrsta leik í meistaraflokki 2017 og lék alls 60 leiki með þeim fram á vorið 2021. Hún skipti þá yfir í Keflavík og lék með þeim alls 18 leiki og þar af 9 leiki í efstu deild. Hún missti hins vegar út stærstan hluta síðasta sumars vegna meiðsla. Hún hefur i þessum 78 leikjum skorað alls 28 mörk.
Birta byrjaði líka sinn feril hjá Þrótti, en sá Þróttur er í Reykjavík. Hún skipti yfir í Breiðablik 2016 og fór markahæst með þeim í úrslitaleik Íslandsmótsins í 4.fl. það sumar, sem tapaðist reyndar fyrir Víkingum! Hún varð Bikarmeistari með Blikum í 3.fl. 2018 og Íslandsmeistari 2019. Hún spilaði sinn fyrsta leik í meistaraflokki með Augnablik, vorið 2018 og lék alls 75 leiki með þeim fram á mitt sumar 2021, en skipti þá yfir í Gróttu og lék með þeim út tímabilið. Hún gekk svo til liðs við Hauka fyrir tímabilið 2022 og lék alls 23 leiki fyrir þá. Alls á hún 103 leiki í mfl. og hefur í þeim skorað 17 mörk.
Víkingar bjóða þær Jóhönnu Lind og Birtu innilega velkomnar í félagið og óska þeim til hamingju með samningana.