Aron Elís Þrándarson er kominn heim
27. júní 2023 | KnattspyrnaAron Elís Þrándarson gengur til liðs við Víking
Knattspyrnudeild Víkings og Aron Elís hafa náð samkomulagi um samning til næstu fjögra ára eftir að samningurinn hans við OB í Danmörku rann út. Landsliðsmaðurinn og Víkingurinn hefur skrifað undir þriggja ára samning við félagið sem gildur út keppnistímabilið 2027
Aron Elís er, eins og allir vita, sonur eins dáðasta leikmanns Víkings og síðan yngri flokka þjálfara, Þrándar Sigurðssonar. Undir stjórn föður síns í sterkum 1994-árgangi í Víkinni náði Aron fljótt miklum árangri í yngri flokkum og vakti athygli snemma á sínum ferli. Það kom því fáum í Víkinni á óvart þegar að Aron Elís þreytti frumraun sína með meistaraflokki í Reykjavíkurmótinu á þrettánda degi árs 2011, þá aðeins 16 ára gamall.
Hann bætti um betur og skoraði í frumraun sinni. Hann spilaði svo sinn fyrsta leik í efstu deild í byrjun maí sama ár. Aron Elís skoraði þrjú mörk í tólf leikjum í deild og bikar í Víkingsliði sem féll niður í B-deild en það var þá sem hann fékk aukna ábyrgð í liðinu.
Eftir að Víkingur náði sér ekki á strik sumarið 2012 þar sem Aron skoraði eitt mark í fimmtán leikjunum er vægt til orða tekið þegar sagt er að hann hafi sprungið út ári síðar. Sumarið 2013, þrátt fyrir meiðsli, skoraði Aron Elís fjórtán mörk í fjórtán leikjum fyrir Víkingsliðið sem kom sér aftur upp á meðal þeirra bestu. Aron varð með frammistöðu sinni aðeins annar leikmaðurinn í sögu B-deildar á eftir Aroni Jóhannssyni til að vera kjörinn besti leikmaður deildarinnar, sá efnilegasti og enda sem markakóngur.
Aron Elís bætti í raun um betur ári síðar þegar að hann setti Víkingsliðið á herðar sér og bar það sem nýliða alla leið til Evrópu með ótrúlegri frammistöðu sinni. ,,Ég hvet alla til að mæta á völlinn og horfa á hann spila meðan hann er hér á landinu,“ sagði Kristján Guðmundsson, þjálfari Keflavíkur, eftir leik liðanna í Víkinni um mitt sumar. Hann skoraði fimm mörk í sextán leikjum og lagði upp annað eins en vegna formgalla í kosningu KSÍ á efnilegasta leikmanni ársins var hann ekki gjaldgengur í kjörið þrátt fyrir að vera aðeins 19 ára.
Aron spilaði 32 leiki fyrir yngri landslið Íslands, þar af fjórtán fyrir U21 árs landsliðið en hann þreytti síðar frumraun sína með A-landsliðinu í vináttuleik gegn Bandaríkunum í byrjun árs 2016. Hann hefur í heildina spilað 17 landsleiki og skoraði í þeim eitt mark en kom gegn San Marínó í fyrra þar sem hann bættist í hóp nokkurra merkra Víkinga sem borið hafa fyrirliðaband íslenska A-landsliðsins.