fbpx

Glæsilegur árangur 4. flokk kvenna á Gothia Cup

6. ágúst 2022 | Knattspyrna
Glæsilegur árangur 4. flokk kvenna á Gothia Cup
4. flokkur kvenna

Dagana 17-23. júlí tóku stelpurnar í 4.flokk Víkings þátt í stærsta fótboltamóti heims, Gothia Cup, sem haldið er í Gautaborg í Svíþjóð ár hvert. Stelpurnar hafa undanfarna mánuði lagt hart að sér við að safna fyrir ferðinni og því skal engan undra að spennan hafi verið mikil þegar loks var lagt í hann frá Keflavík.  Flugvélinni var reyndar flogið af föður eins leikmanns flokksins sem þurfti að stökkva til vegna veikinda starfsbróður síns. Litla Ísland og allt það.

En það var ekkert „litla Ísland“ hugarfar á stelpunum í Svíþjóð. Stelpurnar, sem voru 31 talsins, spiluðu í tveimur liðum í G-14 flokk keppninnar og voru landi, þjóð, fjölskyldu, vinum og þó lengra væri leitið til sóma. Víkingur 2 var skipað stelpum eingöngu af yngra ári (fæddar 2009) og léku við stelpur sem voru árinu (og í einhverjum tilvikum tveimur árum) eldri. Þrátt fyrir að á brattann hafi verið að sækja í orðsins fyllstu merkingu þar sem sumir vellirnir voru í smá brekku, létu stelpurnar aldursmuninn ekki trufla sig og spiluðu af mikilli festu, krafti og ástríðu. Liðið lék fjóra hörku leiki. Þrír af þeim enduðu með tapi en einn með frábærum sigri á liði frá Bandaríkjunum skipað leikmönnum sem voru flestir hverjir höfðinu ef ekki tveim stærri en Víkingsstelpurnar.

Víkingur 1 gerði sér lítið fyrir og komst alla leið í 8 liða úrslit keppninnar. Fyrsti leikur liðsins í riðlinum tapaðist á móti gríðarlega sterku liði frá Bandaríkjunum sem endaði í 3.sæti þegar upp var staðið. Við tóku fjórir sigurleikir í röð og verður sigurleikurinn í 16-liða úrslitum leikmönnum og þjálfurum lengi í minni hafður. Þar léku stelpurnar við hvern sinn fingur og unnu sannfærandi sigur á sterku sænsku liði sem hafði fyrir leikinn unnið alla sína leiki á mótinu með markatölunni 24-0. Liðið datt úr keppni í 8-liða úrslitum heftir hetjulega baráttu á móti kanadíska liðinu Streetball FC sem átti síðan eftir að vinna mótið.

Þó að knattspyrna hafi verið megininntak ferðarinnar var ýmislegt annað brallað. Stelpurnar fóru í Liseberg skemmtigarðinn, stukku út í sjóinn af stökkpöllum, skoðuðu mannlífið og versluðu lífsins gögn og nauðsynjar í verslunum borgarinnar. Stelpurnar kepptu einnig innbyrðis í „Sænska draumnum“ sem var leikur búinn til af þjálfurum liðsins. Leikurinn reyndi á sköpunarkraft, samvinnu og frumkvæði hjá keppendum við að leysa hinar ýmsu þrautir í aðstæðum sem þær eru ekkert endilega vanar.

Allir þeir sem lögðu hönd á plóg við skipulagningu og framkvæmd eiga hrós skilið fyrir virkilega vel heppnaða keppnisferð sem verður stelpunum vonandi lengi í minnum höfð. Sérstaklega ber að nefna farastjórana þær Unni Ylfu, Oggý og Jónu í því samhengi, en þær voru leikmönnum og þjálfurum innan handar nótt sem nýtan dag.