– áfram fyrirliði meistaraflokks karla í handbolta hjá Víkingi
Handknattleiksdeild Víkings hefur framlengt samning við fyrirliðann Jóhann Reyni Gunnlaugsson út næsta tímabil. Jóhann Reynir, sem hefur leitt meistaraflokk karla af festu og elju síðustu árin. Hann á að baki um 250 leiki með Víkingi og hátt í 400 á ferlinum. Það er því mikill styrkur fyrir Víking að hafa jafn reynslumikinn leikmann í sínum röðum og mun hann áfram leika lykilhlutverk innan vallar sem utan.
„Það er mér heiður að halda áfram sem fyrirliði Víkings. Félagið er á réttri leið og ég hlakka til að taka þátt í næsta kafla – bæði sem leikmaður og leiðtogi innan liðsins“ sagði Jóhann Reynir við undirritun samnings.
Víkingur hefur sett markið á sigur í Grill 66-deildinni á næsta tímabili og að ná góðum árangri í Powerade bikarnum. Jóhann mun gegna þar veigamiklu hlutverki við mótun nýrra leikmanna og eflingu liðsheildar. Mikil áhersla hefur verið undanfarin ár að styrkja umgjörð handboltans hjá Víkingi og efla fagmennsku í þjálfun á öllum stigum með það að markmiði að koma þessu fyrrum handboltaveldi meðal þeirra bestu á nýjan leik.
Aðalsteinn Eyjólfsson, yfirmaður handknattleiksmála hjá Víkingi og þjálfari meistaraflokks karla hefur rammað inn þéttan hóp fyrir næsta tímabil og ánægður með að Jóhann Reynir sé tilbúinn að taka slaginn áfram.
„Jóhann Reynir er kjarninn í þeirri menningu sem við erum að byggja upp hjá Víkingi. Hann er ósérhlífinn, fagmannlegur og með sterka réttlætiskennd – hann heldur öllum á tánum og sýnir hvernig á að vinna bæði fyrir sjálfan sig og hópinn. Að framlengja við hann var forgangsmál og mikilvægur þáttur í því að tryggja stöðugleika og framþróun hjá meistaraflokknum“, segir Aðalsteinn.
Víkingur fagnar áframhaldandi samstarfi við Jóhann Reyni og hlakkar til spennandi tímabils framundan.