Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir í Hamingjuna
17. janúar 2025 | KnattspyrnaKnattpyrnudeild Víkings og Áslaug Dóra Sigurbjörnsdóttir hafa undirritað samning til næstu tveggja ára. Áslaug kemur í Hamingjuna frá sænska úrvalsdeildarliðinu Örebro. Hún spilaði sína fyrstu leiki með meistaraflokki Selfoss aðeins 14 ára gömul og var nýorðin 15 ára þegar hún spilaði sína fyrstu leiki í Pepsí-deildinni sumarið 2018. Áslaug var sama ár valin efnilegasti leikmaður liðsins og aftur ári seinna.
Áslaug spilaði alls 86 leiki með Selfoss í efstu deild og samtals á hún 135 leiki fyrir meistaraflokk félagsins og varð m.a. Mjólkurbikarmeistari með liðinu 2019 og Meistari meistaranna árið eftir. Seint á árinu 2023 gekk Áslaug til liðs við Örebro og spilaði með þeim alls 30 leiki og kom við sögu í öllum 26 leikjum liðsins í úrvalsdeildinni. Við fall félagsins úr deildinni í haust virkjaðist ákvæði um riftun samninga við alla leikmenn og lukkulega fyrir okkur Víkinga er hún nú komin í Hamingjuna.
Áslaug Dóra á að baki farsælan feril með yngri landsliðum Íslands. Hún á 8 leiki með U16, 10 leiki með U17, aðeins 15 ára í þremur þeim fyrstu og fyrirliði í tveimur síðustu. Hún á 6 leiki með U19 og þrjá þeirra sem fyrirliði. Þá á hún 6 leiki með U23 og einn A – landsleik. Samtals 31 landsleik, sem gerir hana næstlandsleikjahæsta leikmann núverandi leikmanna kvennaliðs Víkings, en þar er samtals um að ræða 17 leikmenn með samanlagt yfir 200 leiki.
Áslaug Dóra hefur lengst af spilað sem miðvörður, en einnig á miðjunni og hefur skorað nokkur mörk, bæði fyrir félags- og landslið.
Knattspyrnudeild Víkings býður Áslaugu Dóru Sigurbjörnsdóttir innilega velkomna í Hamingjuna. ❤️🖤