3. flokkur kvenna vann B keppni á Gothia Cup
24. júlí 2022 | KnattspyrnaGlæsilegur árangur 3. flokk kvenna á Gothia Cup
Hópur 3. flokks kvenna taldi 20 stelpur, tvo þjálfara og tvo fararstjóra. Keppni hófst eins og hjá öðrum liðum á mánudagsmorgni þann 18. júlí. Stelpurnar hófu leik klukkan 9:00 og var sannarlega ekki að sjá á þeim nokkur þreyta þó að snemmt væri. 7-0 sigur staðreynd gegn sænska liðinu Hisingscacka FC. Sex leikmenn skiptu með sér markaskoruninni.
Næsti leikur var gegn bandaríska liðinu NCE Soccer um miðjan þriðjudag en þær bandarísku fóru með sigur af hólmi 1-0.
Í þriðja leik á miðvikudagsmorgni tapaði liðið svo fyrir Boo FF frá Svíþjóð 1-0. Niðurstaðan því 3 sæti í riðlinum og því útsláttarkeppni í B keppnninni framundan.
Útsláttarkeppninn hófst hjá stelpunum okkar klukkan 19:40 á fimmtudagskvöld. Glæsilegur 4-0 sigur vannst á sænska liðinu BK Höllviken. Síðan æstust leikar allsvakalega en á föstudag spilaði liðið þrjá leiki yfir daginn, fyrst gegn bandaríska liðinu 1775 United FC í 16 liða úrslitum þar sem 1-0 sigur vannst, svo gegn sænska liðinu Skövde Kvinnlika IK þar sem aftur vannst 1-0 sigur og í undanúrslitum mætti liðið sænska liðinu Lunds FF þar sem… já, þið giskuðuð rétt, 1-0 sigur vannst!
Úrslitaleikur beið stelpnanna okkar því snemma að morgni laugardagsins 24. júlí. Í úrslitaleiknum spilaði liðið gegn IFK Kalmar frá Svíþjóð. Eðlilega var mikil þreyta í hópnum og því miður höfðu nokkrir leikmenn meiðst svo að þær gátu ekki tekið þátt í leiknum. Leikurinn fór fram á mögnuðu knattspyrnusvæði við “Nýja” Ullevi sem er reyndar í rauninni gamli völlurinn. Svæðið heitir Heden og er knattspyrnuhátíð á svæðinu frá morgni til kvölds á meðan á mótinu stendur.
En aftur að leiknum! Stelpurnar okkar spiluðu hægan, einfaldan og umfram allt skynsaman leik sem einkenndist af baráttu í öll návígi, að pressa andstæðinginn um allan völl og tapa aldrei baráttunni og stemmingunni, vitandi að þetta væri síðasti leikur mótsins og frí framundan. Og það var einmitt eftir mikla og góða pressu á markvörð þeirra sænsku. Inga Lilja Ómarsdóttir, framherji liðsins, hljóp af fullum krafti í átt að markverðinum, “pikkaði” boltann framhjá henni, sólaði varnarmann og renndi boltanum snyrtilega í mitt markið. Mikil fagnaðarlæti brutust út hjá stuðningsmönnum, leikmönnum og þjálfurum og ekki var gleðin minni þegar dómari leiksins flautaði leikinn af.
Í verðlaunaafhendingu spilaði vallarþulur lögin Chariots of Fire (titillag samnefndar myndar) með hljómsveitinni Vangelis og að sjálfssögðu We Are The Champions með Queen þegar fyrirliði liðsins, Karitas Björg Guðmundsdóttir lyfti bikarnum á loft. Slagari okkar eigin Jeff Who, Barfly, ómaði svo um alla Gautaborg úr hátalarakerfi vallarins. Stelpurnar gerðu sér svo glaðan dag í skemmtigarðinum Liseberg þar sem frábærum árangri, vináttu og lífinu var fagnað.
Til hamingju stelpur!!!