3 flokkur karla sigurvegarar á Gothia Cup 2022
24. júlí 2022 | Knattspyrna3. flokkur karla Víkings gerði sér lítið fyrir og stóðu upp sem sigurvegarar á Gothia Cup í sínum aldursflokkur U16. Þetta er glæsilegur árangur hjá liðinu en það voru 167 lið frá 24 löndum sem spiliðu um meistarabikarinn á mótinu í þessum aldursflokki. Víkingur spilaði gríðarlega vel á mótinu og sigraði alla sína leiki.
Fyrsti leikur liðsins var gegn sænska liðinu IFK Haninge eftir hádegi á mánudeginum. Víkingar unnu góðan 3-0 sigur. Leikur tvö fór fram að morgni þriðjudagsins gegn Marakóska liðinu USCH 2 og vannst 2-0 sigur. Í þriðja leik liðsins, sem fram fór á miðvikudeginum, gegn sænska liðinu BK Flagg, vannst enn einn sigurinn og í þetta skiptið afar sannfærandi, 6-0 sigur. Niðurstaðan því 1. sæti í riðlinum, 11 mörk skoruð og ekkert fengið á sig. Glæsilegur árangur og góð fyrirheit um framhaldið. Menn voru þó meðvitaðir um að nú yrði róðurinn þyngri þegar úrslitakeppni bestu liðanna myndi hefjast. Og svo kom fimmtudagurinn 21. júlí, dagur sem lengi verður í minnum hafður hjá þjálfurum, leikmönnum og aðstandendum liðsins.
Dagurinn hófst á leik gegn Franska liðinu Live Your World Cup snemma morguns en leikurinn var hluti 62 liða úrslita mótsins. Leikurinn vannst 3-0 og var það mat þjálfara og leikmanna að liðið hefði getað spilað betur, að í raun hafi verið um góða morgunæfingu að ræða og lögð var mikil áhersla á að gera margt betur í næsta leik og var það því í raun kærkomið að hann var síðar þennan sama dag. Óhætt er að segja að drengirnir hafi svarað kallinu.
Leikið var á glæsilegu akademíusvæði Hacken í Gautaborg, Grimbo, gegn sænska liðinu Rågsveds IF, liði sem hafði fram að leik dagsins átt gott mót og meðal annars gert 1-1 jafntefli við lið Stjörnunnar. Það verður að teljast glæsileg úrslit fyrir þá sænsku þar sem að lið Stjörnunnar fór alla leið í úrslitaleikinn í aldursflokknum. Leikurinn var í 32 liða úrslitum mótsins.
Á fallegu júlíkvöldi, við fullkomnar aðstæður til þess að spila fótbolta og fyrir framan fjölmarga stuðningsmenn, bæði iðkendur og foreldra, spilaði liðið nærrum því hinn fullkomna knattspyrnuleik. Leikmenn andstæðinganna voru neyddir til þess að hætta að spila fótbolta og fara í stórfiskaleik þar sem þeir náðu varla að snerta leikmenn okkar sem spiluðu sig aftur, og aftur og aftur og enn og aftur í gegnum liðið með stuttum, snöggum sendingum, stungusendingum, einstaklingsframtaki, löngum sendingum, föstum leikatriðum… leikurinn var í raun glæsileg knattspyrnusýning þar sem samstillt lið Víkinga skoraði 13 mörk gegn engu. Mörkin voru í öllum regnboganslitum og hvert öðru fallegra. Þjálfarar liðsins áttu vart orð yfir frammistöðunni og erfitt var að verjast þeirri tilhugsun að eitthvað stórkostlegt væri í uppsiglingu. Ef liðið spilaði áfram svona gæti ekkert lið stöðvað það.
Föstudagurinn hófst á leik gegn Limhamn FC 2 á glæsilegu aðalsvæði mótsins, Heden, í miðborg Gautaborgar. Leikurinn hófst klukkan 10:10. Drengirnir spiluðu fínan leik og unnu 4-0 sigur. Lítill tími var til þess að hvílast þar sem leikið var síðdegis, leikurinn hófst klukkan 16:10. Leikið var gegn Austurríska liðinu USV St. Ulrich og vannst 3-0 góður sigur á sama velli og um morguninn. Sæti í undanúrslitum tryggt, leik sem fram fór klukkan 20:10 þennan sama föstudag, þrír leikir á tíu tímum hjá þessum ótrúlega öflugu drengjum og enn var leikið á þessum sama Heden velli!
Andstæðingar liðsins í undanúrslitum var Falu BS FK frá Svíþjóð og vannst ágætur sigur, síst of stór, 4-1 og ómaði um alla Gautaborg slagari okkar eigin Víkinga, Barfly með Jeff Who. Að leik loknum kom í ljós að búið væri að færa úrslitaleikinn sem átti að fara fram klukkan 12:20 til klukkan 19:00 á laugardeginum og myndi liðið því fá þann heiður að spila síðasta leik mótsins og það sem enn betra var, fengi lengri tíma til þess að hvílast og safna kröftum. Lagt var upp plan til þess að allir leikmenn væru í sem allra bestu standi þegar flautað yrði til leiks að kvöldi laugardagsins 23. júlí. Maður er nefndur Númi Már Atlason, þjálfari 4. flokks kvenna og nemi í sjúkraþjálfun. Hann átti eftir að reynast okkur ómetanlegur.
Dagurinn hófst á morgunmat hjá strákunum en hluti þjálfarateymisins fór niður í Heden til þess að sjá glæsilegan sigur 3. flokks kvenna í sínum úrslitaleik sem og til þess að fara í apótek og sportvörubúð að byrgja sig upp af alskonar varning, nú skyldi allt gert til þess að sigla heim titilinum. Drengirnir fóru af hótelinu í skólann þar sem hádegismatur var snæddur og þaðan var aftur farið á hótelið þar sem þjálfarar höfðu varið hádeginu í örnámskeiði hjá Núma í nuddi og meðhöndlun. Hennt var upp glæsilegri nuddaðstöðu í stóru fundarherbergi þaðan sem öskur og óp drengjanna undan nauðsynlegum fantabrögðum þjálfara ómuðu, öðrum hótelgestum líklega til mikils ama. Af hótelinu var farið í kvöldmat og svo var komið að stóru stundinni þar sem Víkingar gengu fylgtu liði inn á hinn glæsilega Gamla Ullevi í miðborg Gautaborgar.
Nokkur seinkun varð á leiknum þar sem að úrslitaleikir mótsins höfðu margir hverjir þurft að vera útkláðir með vítaspyrnukeppnum. Leikmenn Víkings gengu því ekki inn á völlinn fyrr en 19:40, hlið við hlið við leikmenn Stjörnunnar úr Garðabæ. Framtíð íslenskrar knattspyrnu er sannarlega björt enda hefur framganga þeirra, jafnt í drengja og stúlkna flokkum, vakið verðskuldaða athygli á mótinu. Sem dæmi má geta þess að fjögur af átta liðum í átta liða úrslitum 16 ára keppninnar voru íslensk, það er KA, Breiðablik, Stjarnan og Víkingur.
Íslenski þjóðsöngurinn var sunginn fyrir leik, forseti lýðveldisins, Hr. Guðni Th, Jóhannesson var heiðursgestur leiksins og glæsilegir fulltrúar Stjörnunnar og Víkings, sem og fjölmargra annarra liða, studdu vel við liðin á meðan á leik stóð.
Eins og svo oft gerist með úrslitaleiki mátti skynja af leik liðina að hvorugt liðið vildi gera nokkur mistök, liðin áttu erfitt með að halda boltanum og senda einföldustu sendingar og spennustigið var hátt enda ærin ástæða til. Víkingar vörðust vel, náðu að byggja upp ágætar sóknir og komast í hálffæri en herslumuninn vantaði til þess að skora. Hættulegasta marktækifæri Víkinga kom þegar Ari Björn Björnsson átti þrumuskot, frá vítateigshorni, sem flaug rétt framhjá og yfir samskeyti þverslár og markstangar, skot sem allir á bekk Víkinga héldu að væri að stefna inn. Augnablik fyrrihálfleiksins var svo án nokkurs vafa þegar Jochum Magnússon, markvörður liðsins, átti markvörslu af stuttu færi þar sem hann skutlaði sér til hægri, setti flatann lófan í boltann og varði þannig að boltinn fór í þverslánna og út í markteiginn þaðan sem varnarmenn Víkings hreinsuðu boltann í burtu frá markinu. Markvarslan var á heimsmælikvarða, eitthvað sem menn sjá helst allra fremstu markverði heimsins framkvæma. Varslan var einnig til þess að markalaust var að venjulegum leiktíma loknum og því var farið í vítaspyrnukeppni.
Fyrstu spyrnu Víkinga tók Ívar Björgvinsson, hann skoraði af miklu öryggi, aðra spyrnu tók Þorri Heiðar Bergmann og var spyrna hans einnig afar örugg. Stjörnumenn skoruðu úr sinni fyrstu spyrnu en í annarri spyrnu spyrnti leikmaður þeirra í stöngina og út, brenndi því af eins og sagt er. Þriðju spyrnu Víkinga tók Haraldur Ágúst Brynjarsson og skoraði hann af miklu öryggi og þá fjórðu tók Jóhann Kanfory Tjörvason og enn söng í marknetinu, spyrnurnar hverri annarri öruggari. Stjörnumenn skoruðu úr sínum þriðju og fjórðu spyrnum svo það féll í skaut Daða Berg Jónssonar að tryggja sigur okkar Víkinga úr okkar fimmtu spyrnu. Hann stillti upp boltanum, tók nokkur skref aftur á bak, dŕog andan djúpt, horfði á boltann, svo á markvörðinn, aftur á boltann, svo á markvörðinn, og eftir fimm skref að boltanum, skot með flatri rist þar sem boltinn söng í hliðarneti marksins og því sem virtist vera heil eilífð en var í raun bara örfá andartök trylltust leikmenn, þjálfarar, liðstjóri og allir stuðningsmenn af fögnuði. Menn féllust í faðma, grétu, hlógu, öskruðu, föðmuðust, grétu, öskruðu, blótuðu smá, hlógu, grétu og föðmuðust úti á miðjum velli, drukku í sig stemminguna og lætin, á meðan fagnaðaróp stuðningsmanna ómuðu um allan völl.
Ketill Ágústsson, fyrirliði liðsins, veitti svo glæsilegum bikar mótsins viðtöku úr höndum sjálfs forseta Íslands, Freddie Mercury þandi raddböndin og á hárréttu augnabliki lyfti fyrirliðinn bikarnum, einmitt í þann mund sem Freddie emjaði “We Are The Champions, my friend, and we keep on fighting to the end” með leikmenn og starfslið allt um kring. Teknar voru ljósmyndir og myndbönd þar til starfsfólk vallarins ýtti mannskapnum nánast með handafli inn í búningsklefa þar sem fagnaðarlætin héldu áfram. Magnaður árangur hjá mögnuðum drengjum sem sköpuðu minningar og gleði augnablik sem allir farþegar ferðalags þessara drengja munu lifa á um ókomna framtíð.
Sigrinum, vináttunni og lífinu var svo fagnað í skemmtigarðinum Liseberg á sunnudeginum en deginum áður höfðu aðrir leikmenn flokksins farið í garðinn. Það þarf að endurraða í bikarskápnum í Víkinni, pússa glerið og yfirfara lýsinguna, það eru tveir nýir bikarar á leið til landsins í handfarangri!!!
Í A-liði eldra árs voru 15 leikmenn. Þeir voru:
Jochum Magnússon, Hrafnkell Víðisson, Daði Berg Jónsson, Guðjón Ármann Jónsson, Ívar Björgvinsson, Aron Freyr Marínósson, Ari Björn Björnsson, Þorri Heiðar Bergmann, Gylfi Þór Hassing, Haraldur Sturluson Hamar, Jóhann Kanfory Tjörvason, Guðni Dagur Garðarsson, Sölvi Stefánsson, Haraldur Ágúst Brynjarsson og Ketill Guðlaugur Ágústsson sem var fyrirliði liðsins.
Þjálfarar liðsins eru Björn Bjartmarz, Guðni Snær Emilsson, Ólafur Davíðsson og Gunnar Óli Dagmararson.