Víkingur og BMW endurnýja samstarfssamninginn

7. júní 2024 | Knattspyrna
Víkingur og BMW endurnýja samstarfssamninginn
Nýjum samningi fagnað, f.v. Bergdís Sveinsdóttir, leikmaður Víkings í meistaraflokki kvenna, Heimir Gunnlaugsson, formaður knattspyrnudeildar Víkings, Brynjar Elefsen Óskarsson, forstjóri BL ehf., og Oliver Ekroth, leikmaður Víkings í meistaraflokki karla.

Knattspyrnudeild Víkings í Reykjavík og bílaumboð BMW á Íslandi endurnýjuðu á dögunum samstarfssamning sinn frá 2021 þegar BMW gerðist styrktaraðili meistaraflokks Víkings í karlaflokki. Með nýjum samningi, sem gildir til ársloka 2026, gerist BMW nú einnig styrktaraðili meistaraflokks kvenna hjá knattspyrnufélaginu.

Víkingur á siglingu

Bæði Víkingsliðin eru á góðri siglingu um þessar mundir. Karlaliðið er ríkjandi Íslandsmeistari, bikarmeistari, Reykjavíkurmeistari, meistari meistaranna 2024 og er liðið sem stendur á toppi bestu deildarinnar eftir 10 umferðir. Svipaða sögu er að segja af meistaraflokki Víkingskvenna; þær eru ríkjandi bikarmeistarar, Reykjavíkurmeistarar 2024, meistarar meistaranna 2024 og eru nú sem stendur í 5. sæti bestu deildarinnar.

Gaman að fylgjast með

„Það hefur verið geysilega gaman að fylgjast með árangri meistaraflokkanna hjá Víkingi undanfarin ár og þegar kom að endurnýjun samningsins á dögunum fannst okkur ekki koma annað til greina en að bæta meistaraflokki kvenna við og styðja þannig við bakið á báðum liðunum næstu árin. Þau hafa sýnt ótrúlegan og skemmtilegan árangur undanfarin misseri,“ segir Brynjar Elefsen, forstjóri BL ehf.

Farsælt samstarf

„Samstarfið við BMW undanfarin ár hefur verið mjög farsælt og stuðningur umboðsins við knattspyrnudeild Víkings ómetnanlegur fyrir okkur. Við erum mjög ánægð að BMW hafi ákveðið að halda áfram að styðja okkur og erum spennt fyrir samstarfinu fram undan,“ segir Heimir Gunnlaugsson, formaður Víkings.