Upplýsingar varðandi umspilið gegn Panathinaikos
3. janúar 2025 | KnattspyrnaKæru Víkingar, nú er rétt rúmur mánuður þar til #EuroVikes mæta Panathinaikos í umspili Sambandsdeildar Evrópu um sæti í 16 liða úrslitum keppninnar. Ljóst er að heimaleikur okkar verður ekki leikinn á Íslandi og skv. nýjustu upplýsingum koma Færeyjar ekki heldur til greina.
Fyrri leikurinn, heimaleikurinn okkar, fer fram fimmtudaginn 13.febrúar og nokkrir staðir eru í skoðun ; Oslo, Helsinki, Svíþjóð og Kaupmannahöfn. Leikvangur í Kaupmannahöfn er kominn lengst í ferlinu en þó ekkert sé öruggt fyrr en það er 100% öruggt þá er líklegast að við spilum í Köben eins og staðan er núna.
Seinni leikurinn fer fram fimmtudaginn 20.febrúar í Aþenu á heimavelli Panathinaikos. Liðið okkar mun mjög líklega ferðast beint frá leikstað fyrri leiks til Grikklands, en það er þó ekki 100% öruggt. Það gæti nefnilega verið að fyrri leikurinn fari fram 11.febrúar vegna þess að FCK á heimaleik í Kaupmannahöfn 13.febrúar og ef yfirvöld meta leikina sem „high risk“ er mögulegt að annar leikjanna fari fram þann 11.feb þ.e. ef við spilum í Kaupmannahöfn.
Seinni leikurinn gæti líka ferið færður um dag eða tvo fram, ef svo vill til að Olympiakos frá Aþenu nái þannig úrslitum úr síðustu tveimur leikjum sínum í Evrópudeildinni og verði „seeded“ í sínu einvígi um að komast í 16 liða úrslit þeirrar keppni. Þá myndum við spila seinni leikinn 19.febrúar.
Einfalt, ekki satt? ……👀
Knattspyrnudeild Víkings hefur unnið myrkranna á milli við að finna bestu lausnina og við munum tilkynna staðfestan leikstað um leið og við mögulega getum. Fylgist vel með hér á samfélagsmiðlum okkar og áfram Víkingur!