Meistaraflokkur kvenna: Mikael og Lára koma inn í teymið

21. nóvember 2022 | Knattspyrna
Meistaraflokkur kvenna: Mikael og Lára koma inn í teymið
Lára Hafliðadóttir & Mikael Brune

Knattspyrnudeild Víkings hefur ráðið Mikael Brune og Láru Hafliðadóttur til starfa fyrir meistara- og 2.fl kvenna í knattspyrnu.

Lára mun vera með yfirumsjón og úrvinnslu á GPS mælingum meistaraflokks kvenna ásamt því að sjá um líkamlegar mælingar fyrir meistaraflokk og 2.flokk. Þá mun Lára veita ráðgjöf varðandi álagsstýringu, þol og styrktarþjálfun kvennaliðsins.

Lára er Víkingur í húð og hár en hún á að baki yfir 150 leiki með meistaraflokki félagsins. Lára er með meistaragráðu í Íþróttavísindum og þjálfun frá HR, KSÍ-B þjálfaragráðu auk annarra þjálfararéttinda. Lára hefur sérhæft sig í mælingum, styrktar og þolþjálfun knattspyrnufólks sem hún kennir m.a. á þjálfaranámskeiðum KSÍ. Lára starfar einnig hjá Greenfit þar sem hún aðstoðar m.a. knattspyrnufólk við að hámarka sína frammistöðu.

Mikael mun sjá um styrktarþjálfun beggja flokka og aðstoða við líkamlegar mælingar.

Mikael hefur lokið B.Sc námi í íþróttafræði frá HR og var í starfsnámi hjá Guðjóni Erni, fitnessþjálfara meistaraflokks karla, á sínum háskólaárum. Mikael sá um styrktarþjálfun og líkamlegar mælingar hjá 3. og 4.fl. karla og kvenna á síðasta tímabili við góðan orðstýr. Við erum því mjög ánægð að fá hann inní enn stærra hlutverk hjá félaginu

Þessi viðbót við þjálfarateymið er liður í þeirri framþróun sem á sér stað innan félagsins þar sem áhersla er lögð á faglega þjálfun í takt við þá þróun sem á sér stað á líkamlega þættinum í knattspyrnuheiminum í dag.

John Andrews, Þjálfari mfl kvk & Mikael Brune, nýr styrktarþjálfari mfl kvk
Lára Hafliðadóttir, nýr ráðgjafi mfl kvk & John Andrews, þjálfari mfl kvk
Lára Hafliðadóttir, John Andrews & Mikael Brune