fbpx

Automatic translation by Google Translate. We cannot guarantee that it is accurate.

Linda Líf Boama undirritaði samning við Víking

20. janúar 2023 | Knattspyrna
Linda Líf Boama undirritaði samning við Víking
Linda Líf Boama er mætt aftur í víkinna

Velkomin heim Linda!

Linda Líf Boama sem fædd er 2001, hefur undirritað samning við knattspyrnudeild Víkings til að leika með liðinu út keppnistímabilið 2024.

Linda gekk fyrst til liðs við Víkinga lok leiktíðar 2014 þá 14 ára gömul. Metnaður hennar stóð snemma til afreka á knattspyrnuvellinum og Víkingar með hörku gott lið í hennar árgangi á þeim tíma. Titlarnir létu heldur ekki á sér standa. Hún varð Reykjavíkur- og Íslandsmeistari með 4.fl á sínu fyrsta ári og endurtók svo leikinn með 3.fl. ári seinn. Í kjölfarið fylgdi svo alslemman með Reykjavíkur-, Bikar- og Íslandsmeistaratitli í 3.fl. árið 2017. Þá varð hún einnig Reykjavíkur- og Faxaflóameistari með 2.fl. HK/Víkings það sama ár. 

Linda Líf lék sinn fyrsta leik með meistaraflokki HK/Víkings í byrjun árs 2017 þá aðeins 16 ára gömul og varð Lengjubikarmeistari C-liða með liðinu og deildarmeistari 1. deildar þegar liðið tryggði sér sæti í efstu deild síðar um sumarið. Hún spilaði svo sína fyrstu leiki í efstu deild sumarið 2018, þegar liðið tryggði sér áframhaldandi þátttöku á meðal þeirra bestu. Alls spilaði hún 41 leik með mfl. HK/Víkings á þessum tveimur árum og þar af 9 leiki í efstu deild og skoraði alls 10 mörk í öllum keppnum með liðinu.

Linda Líf gekk til liðs við Þrótt fyrir tímabilið 2019 og átti stóran þátt í að tryggja þeim sigur í Inkasso-deildinni, með 22 mörkum, önnur markahæst í deildinni það sumar. Hún var í kjölfarið útnefnd íþróttamaður Þróttar þá um haustið. Hún spilaði svo með Þrótti í Pepsí-Max-deildinni framan af sumri 2020, en viðbeinsbrotnaði og fór síðla sumars til náms til BNA á „fótboltastyrk“ hjá Boston College.

Alls á Linda Líf skráða 93 KSÍ leiki og hefur hún skorað í þeim 52 mörk. Linda á jafnframt 10 leiki með U19 landsliði Íslands og skoraði í þeim 3 mörk. 

Að framansögðu má ljóst vera hversu mikið Víkingar geta látið sig hlakka til sjá Lindu aftur í búningnum með svörtu og rauðu rendurnar og bjóða hana velkomna heim! 

John Andrews, þjálfari mfl kvk & Linda Líf, nýr leikmaður Víkings