Jón Gunnlaugur tekur sér frí frá þjálfun meistaraflokks karla

8. maí 2024 | Félagið, Handbolti
Jón Gunnlaugur tekur sér frí frá þjálfun meistaraflokks karla
Jón Gunnlaugur Viggóson

Eftir frábært starf við uppbyggingu handboltans í Víking undanfarin ár bæði í yngri flokkum og sem þjálfari meistaraflokks karla, hefur Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari meistaraflokks karla í Víkingi ákveðið að taka sér frí frá þjálfun meistaraflokks næsta keppnistímabil.

Jón Gunnlaugur hefur náð frábærum árangri með Víkingsliðið í þröngri stöðu með því að koma liðinu í tvígang upp í efstu deild og í bæði skiptin komið á óvart með góðum árangri gegn öllum spám þótt liðið hafi á lokametrunum í ár bitið í það súra epli að falla á ný eftir hetjulega baráttu. Víkingsliðið sem Jón Gunnlaugur hefur byggt upp hefur einkennst af mikilli baráttu og meiri gæðum en búist var við, framfarirnar augljósar og ekkert lið gat bókað sigur fyrirfram!

Aðalstjórn Víkings og stjórn handknattleiksdeildar Víkings þakkar Jóni Gunnlaugi fyrir mikið og óeigingjarnt starf hans við uppbyggingu handboltans undanfarin ár, bæði hvað varðar uppbyggingu yngri flokka félagsins og ekki síður að sýna fram á að Víkingur á heima meðal þeirra bestu. Jón Gunnlaugur mun þó halda áfram að styðja við handboltann í Víkingi sem rekstrarstjóri Víkings í Safamýrinni sem hann hefur unnið að undanfarin misseri eftir að Víkingur tók við á þeim bæ. Verkefni stjórnar handknattleiksdeildar Víkings er nú að finna góðan þjálfara fyrir meistaraflokk karla í Víkingi sem mun taka við því krefjandi verkefni að feta í fótspor Jóns Gunnlaugs sem uppbyggjandi þjálfari og tryggja stöðu Víkings þar sem Víkingur á heima. Í efstu deild til frambúðar.