Bergdís, Katla og Sigdís skrifa undir 3 ára samning

26. apríl 2024 | Knattspyrna
Bergdís, Katla og Sigdís skrifa undir 3 ára samning
frá vinstri Sigdís, Katla og Bergdís

Sumardagurinn fyrsti var tekinn snemma í Víkinni, enda tilefnið stórt! Þriggja ára samningur við þrjár af efnilegustu stúlkum landsins, þær Sigdísi Evu Bárðardóttur, Sigurborgu Kötlu Sveinbjörnsdóttur og Bergdísi Sveinsdóttur var til undirritunar.

Þær stöllur hafa fylgst að í langan tíma og fyrri samningar hafa verið gerðir við þær á sama tíma. Sá fyrsti var undirritaður þann 10.09.2021 til tveggja ára, sá næsti 15.09.2022 líka til tveggja ára og nú sá þriðji sem gerður er til þriggja ára.

Þrátt fyrir ungan aldur hafa þær allar þrjár, átt stóran þátt í þeirri velgengni sem Víkingar státa af á síðustu misserum og eflaust fá dæmi þessa að leikmenn á þeirra aldri hafi hampað þeim fjölda bikara sem þær hafa gert og það sem burðarásar í sínu liði. Leikreynsla þeirra með mfl. á sér líka fá dæmi. Sigdís með 75 leiki, Bergdís með 59 leiki og Katla með 57. Þegar rýnt er í söguna má einungis finna þrjú viðlíka dæmi úr röðum Víkings-stúlkna á 18 aldursári við  upphaf Íslandsmóts. Þær eru Lára Hafliðadóttir (1987) með 63 leiki, Karólína Jack (2001) með 59 leiki og Anna Margrét Benediktsdóttir (1994) með 54 leiki og einungis 11 til viðbótar sem státa af fleiri en 40 leikjum á við upphaf Íslandsmóts á þeirra aldri og fæstar þá í efstu deild.

Þau eru heldur ekki mörg dæmin um þrjá leikmenn eða fleiri í sama árgangi sem hafa náð jafn langt. Dæmin eru þó til þar sem þrjár eða fleiri hafa náð yfir 50 leikjum fyrir mfl., en þeir árgangar eru einungis 10 talsins. Sterkastur er árgangur 1989 þar sem fimm leikmenn skipta með sér samtals 740 leikjum, árgangur 1994 þar sem fimm leikmenn spiluðu samtals 475 leiki og árgangur 2001 þar sem fimm leikmenn hafa spilað samtals 450 leiki og tvær þeirra, Tara og Linda Líf, eru reyndar enn að bæta við þá tölu!

Bergdís, Katla og Sigdís  státa líka af fleiri leikjum með yngri landsliðum en flestar þeirra sem spiluðu fyrir Víking (HK/Víking) á sama tíma og þær léku með yngra landsliði. Bergdís á 35 leiki, Sigdís á 31 leik og Katla 18 leiki og þær eiga bara eftir að bæta við!  Þær sem koma næstar þeim eru Karólína Jack (2001) með 33 leiki, Glódís Perla Viggósdóttir (1995) með 25 leiki, Þórhildur Þórhallsdóttir (2003) með 17 leiki, Eyvör Halla Jónsdóttir (1999), Elma Lára Auðunsdóttir (1996) og Stefanía Ásta Tryggvadóttir (1999) með 15 leiki og Berglind Bjarnadóttir (1990) og Lára Hafliðadóttir (1987) með 14 leiki.

Að framantöldu má ljóst vera að Víkingar mega vera stoltir að hafa náð að tryggja sér samninga við þær stöllur til næstu þriggja ára og þó hamingjuóskirnar séu hér til þeirra þá er hamingjan fyrst og fremst okkar. Áfram Víkingur.