fbpx

Svanhildur Ylfa í 100 leikja klúbb Víkings

6. maí 2023 | Knattspyrna
Svanhildur Ylfa í 100 leikja klúbb Víkings

Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir er tuttugasti meðlimur í 100 leikja klúbbi meistaraflokk kvenna Víkings. Henni voru færð blóm og viðurkenningarskjöldur fyrir fyrsta leik á Íslandsmótinu.

Svanhildur Ylfa, sem fædd er 2003, sleit fyrstu knattspyrnusónum á Grundarfirði. Hún hafið stutta viðkomu í FH, en skipti fljótt yfir í HK og hefur verið á mála hjá HK/Víking og síðar sjálfstæðu liði Víkings nær allan sinn meistaraflokksferil. (sjá nokkrar myndir frá ferlinum)

Hún lék sinn fyrsta leik með mfl. HK/Víkings, 15 ára, í byrjun árs 2019 og tók þátt í 23 leikjum á sínu fyrsta tímabili og spilaði fjölda leikja í efstu deild þá um sumarið. Þar skoraði hún sitt fyrsta mark í eftirminnilegum leik á móti Breiðablik. Covid-árin tvö sem fylgdu á eftir hægðu verulega á talningu leikja, en Svanhildur er samt sem áður með allra yngstu leikmönnum Víkings til að ná þessum 100 leikjum og er eins og að framan segir einungis sú tuttugasta í 28 ára sögu mfl.kvk. Víkings og HK/Víkings 1981-1985 og 2001-2023 til að ná þeim áfanga.

Hundrað leikja klúbbur mfl.kvk. Víkings (Skjaldarhafar)

Svanhildur hefur byrjað þetta tímabil af miklum krafti og hefur ásamt fimm öðrum leikmönnum tekið þátt í öllum leikjum tímabilsins. Hún hélt upp á 100 leikja áfangann með því að skorað fyrsta mark liðsins á nýhöfnu Íslandsmótinu og ljóst að hún á eftir að setja þau nokkur í sumar.

Víkingar óska Svanhildi Ylfu hjartanlega til hamingju með áfangann og megi hún bæta sem flestum leikjum við á komandi árum.

Sjá hér meðfylgjandi myndir frá því að Berglind Bjarnadóttir og Sigurbjörn Björnsson færu henni viðurkenninguna fyrir upphafsleik Íslandsmótsins.