fbpx

Embla Dögg skrifar undir sinn fyrsta samning við Víking

12. desember 2022 | Knattspyrna
Embla Dögg skrifar undir sinn fyrsta samning við Víking
Embla Dögg Aðalsteinsdóttir

Gengið hefur verið frá samningi við Emblu Dögg Aðalsteinsdóttur, markvörð

Embla hóf ung að æfa með Fram, enda Úlfarsárdalurinn hennar heimasvæði. Hún lék með Fram upp í 5.fl. og átti m.a. þátt í að koma flokknum upp í deild þeirra bestu. Metnaður stóð hins vegar til frekari afreka og skipti hún yfir í Val á yngra ári í 4.fl. Hún varð Íslands-, Reykvíkur- og Faxaflóameistari með B-liði flokksins 2019, en spilaði jafnframt nokkra leiki með 3.fl. sem varð einnig Reykjavíkur og Faxaflóameistari B-liða það ár.

Embla Dögg skipti svo yfir í Víking á síðara ári í 4.fl og lék með þeim til úrslita á Íslandsmótinu 2020, en liðið mátti sæta sig við tap í úrslitaleik á móti Breiðablik þá um haustið. Hún spilaði jafnframt nokkra leiki með 3.fl. sem náði í undanúrslit Íslandsmótsins það ár og endurtók svo leikinn með liðinu sumarið 2021. Síðasta sumar spilaði Embla bæði með 2.fl og 3.fl., en 2.fl náði þá 3. sæti á Íslandsmótinu. Lið 2.fl. hóf svo keppni á Reykjavíkurmótinu 2.fl. U20 A-deild 22/23 fyrir nokkrum dögum, með 8-1 stórsigri á Val.

Segja má að með samningi Emblu Daggar sé fjórða hjólið komið undir vagn frábærs árgangs 2006, þar sem þær eru fyrir Bergdís, Katla og Sigdís, en allar fjórar hafa þær nýverið verið valdar til úrtaksæfinga með U17 landsliði Íslands og hafa áður allar verið valdar í hópa bæði U15 og U16.

Það hefur ekki tíðkast að ættir leikmanna sem hafa samið við Víking séu sérstaklega raktar, en nú er tilefni til. Embla Dögg er dóttir Aðalsteins Aðalsteinssonar sem á vel á annað hundrað leiki með mfl. Víkings og varð til að mynda Íslandsmeistari með liðinu 1981 og 1982, en hún er líka dóttir Önnu Maríu Bjarnadóttur sem spilaði yfir 70 leiki með mfl. Víkings á upphafsárum meistaraflokks kvenna, 1981 til 1985. Það voru reyndar aðeins aðrir tímar í boltanum þá, því þegar Anna María hóf sinn feril í mfl. voru þær a.m.k. fimm 13 ára í liðinu og flestir leikmenn höfðu þá ekki náð Emblu Dögg i aldri. Þegar liðið var dregið úr keppni eftir tímabil 1985 var Anna María leikjahæst allra leikmanna liðsins og hélt þeirri nafnbót í 20 ár, eða allt þar til Sigurrós María Sigurbjörnsdóttir tók fram úr henni sumarið 2005, eftir að mfl. hafði verið endurvakin í samstarfi HK og Víkings árið 2001.

Til hamingju Embla Dögg með að vera komin á samning við Víking, sem ætlar sé stóra hluti á næstu árum með þann glæsilega hóp ungra leikmanna sem liðið hefur nú á að skipa.