fbpx

Bikarmeistarar 2022

4. október 2022 | Knattspyrna
Bikarmeistarar 2022

Víkingur Bikarmeistari í 3 skiptið í röð

Laugardagurinn 1. október 2022 var góður dagur.  Dagurinn byrjaði á hverfishátíð í Safamýrinni.  Þar sem Víkingur bauð íbúum alls hverfisins að koma og eiga glaðan dag saman í nýmálaðri Safamýrinni, hoppa í hopp kastala, fá andlitsmálningu, popp og pulsur. Safamýrin er óðum að taka á sig mynd í anda nýrra húsbónda.  Vikurnar á undan voru notaðar vel við að mála og merkja ásamt að kynnast húsinu.

Óhætt er að segja að Safamýrin taki vel á móti nýju félagi.  Hverfishátíðin hélt áfram til þrjú þó áherslan hafi smám saman færst frá poppi og hoppiköstulum yfir á Hjaltested borgara og kalda drykki.  Þegar nær dró leik steig Baddi í Jeff Who á stokk og söng með okkur hið ódauðlega og einstaklega grípandi markalag sitt Barfly.  Salurinn tók vel undir Lalallallaaallalalalalllallala.  Ætli það verði tilefni til þess að endurtaka leikinn á Laugardalsvelli?

Í kjölfar Badda kom ekki minni snillingur Jónas Sig á svið og tók hitt einkennislag Víkings – Hamingjan er hér.  Fyrir aftan Jónas á sviðinu var borði í svörtu og rauðu sem staðfesti fullyrðingu meistarans, eða CHO – Chief Happiness Officer Víkings,  að Hamingjan svo sannanlega hér!  Hvort sem við erum stödd á Heimavelli hamingjunnar eða í Safamýri eða jafnvel í Laugardalnum.  Hamingjan ferðast með okkur!

Vel heitur og peppaður fór salurinn í einni halarófu niður í Laugardal undir fánaborg og drumbuslætti.  Nálægt Laugardalsvelli hitti skrúðgangan á aðra skrúðgöngu, sem hóf ferð sína í Ölver,  urðu þar fagnaðarfundir sem áttu eftir að lifa vel inn í leikinn sem fram undan var.

Aldrei rákust Víkingarnir á FHinga í þessari för.  Þau hafa væntanlega lagt bílunum sínum við sundlaugina og komið inn hinum megin.

Leikurinn sjálfur var ein skemmtilegasti bikarleikur síðari ára.  Óhætt er að segja að hann hafi verið erfiðastur af þeim þrem úrslitleikjum sem við Víkingar höfum tekið þátt í á undanförnum fjórum árum.  FHingar,  sem komu inn í leikinn í fallsæti gáfu ekkert eftir og svöruðu öllum áhlaupum af krafti og einurð.

Fyrsta mark okkar Víkinga kom á 26. mínútu þegar Pablo Punyed kom boltanum í netið með viðkomu í leikmanni FH eftir glæsilega sendingu frá Danijel Djuric.  Sóknin hófst í vörninni með sendingu á Ara Sigurpálsson sem kom boltanum inn á Danijel á hárréttum tíma.  Glæsileg byrjun á leiknum.

En Pablo var ekki lengi í paradís. Tveim mínutum síðar var allt orðið jafnt að nýju.  Oliver Heiðarsson náði þá að stinga vörn Víkinga af og renni tækla boltann í Ingvar sem þaðan snerist í fjær stöngina og inn.

1-1 í hálfleik og ljóst að spádómar margra fyrir leik um að Víkingur ætti auðvelt verk fyrir höndum væru

sandi byggðir.

Við tók kaflaskiptur seinni hálfleikur þar sem Víkingur var betri aðilinn heilt yfir en FH aldrei langt undan, síógnandi með hraða Ólivers og Vuk á köntunum. Besta færi hálfleiksins átti þó varnarmaðurinn knái Kyle McLagan þegar hann skallaði glæsilega í innanverða stöngina, hvaðan boltinn virtist vera að rúlla til hans aftur þegar öflugur markmaður FH Atli Guðmundsson náði að slæma hendinni í hann og forða þannig auðveldu poti í mark.

Leikar stóðu jafnir allt fram á 89 mínútu þegar Logi átti glæsilega sendingu af vinstri kantinum á Pablo sem náði að flikka boltanum áfram inn í teig þar sem hinn stóri og stæðilegi nýbakaði faðir Nikolaj Hansen stóð ískaldur og stýrði boltanum innanfótar upp í þaknetið.  Stúkan og leikmenn ærðust,  eða réttara sagt Suðurendi stúkunnar og leikmenn Víkings fögnuðu vel og innilega enda ljóst að leikurinn væri unninn, lítið eftir, formsatriði að klára.  Menn og konur hugsuðu hlýlega og af aðdáun til Arnars Gunnlaugssonar sem hafði skipt Nikolaj inná einhverjum mínútum áður – Maðurinn er náttúrulega snillingur.

Á meðan einbeitingin var á bikarnum og snilli stjórans, náðu svart hvítu fimleikamennirnir vopnum sínum og beittu þeim af harðfylgi á úturdraumaða Víkinga sem voru búnir að slíðra sverðin.  Ástbjörn FHingur náði að prjóna sig upp að endalínu, komast í gegnum Helga Guðjónsson sem ákvað í sigurvímunni að henda sér kylliflötum í grasið eins og ónefndur dyggur stuðningsmaður Víkinga hafði gert svo eftirminnilega fyrr í leiknum.  Skotvinkillinn var þröngur og næstum ómögulegt að sjá hvernig staða Ástbjörns væri hættuleg.  Sennilega var Ástbjörn sammála þessu mati því hann einfaldlega hlóð í skot/fyrirgjöf á engan.  FHingarnir sem eru þekktir fyrir allt annað en hraða menn frammi, eftir að Oliver og Vuk voru farnir af velli voru hvergi sjáanlegir í teignum.  Skot fyrirgjöfin fór í glæsilega lærið á Loga, breytti um stefnu, tók á sig snúning fór í Ingvar sem var með boltann allann tímann, undir hann og rúllaði yfir línuna.  Ekki mínúta liðin frá sigurmarki Víkings og allt orðið jafnt að nýju.

Framlenging staðreynd, gæslumönnum og öðrum starfsmönnum vallarins til mikillar mæðu.  Hafa sennilega samið af sér og tekið giggið fyrir fasta greiðslu.  Meiri fótbolti fram undan og allavega 30 mínútna töf á heimferð, bömmer.

Arnar náði á þessum stutta tíma sem leið frá loka flauti að upphafs flautinu að stappa stáli í sína menn.  Þetta er bara skemmtilegt.  Meiri fótbolti fyrir framan 4.381 áhorfenda.  Þar fyrir utan var vel dregið af FHingum, þeirra sögulega bestu menn farnir að lýjast og einhverjir af þeim farnir af velli.  Sennilega hefur hléið verið heldur snubbótt fyrir Hafnfirðingana, því þeir voru ekki tilbúnir þegar Víkingur hóf sína fyrstu sókn.  Þeir féllu allir frá Loga þegar hann kom sjálfum sér, hinum svokölluðu sérfræðingum, lýsendum, áhorfendum, liðsfélögum og ekki síst FHingum á óvart þegar hann mundaði vitlausa fótinn og gaf hárnákvæma sendingu beint á kollinn á títtnefndum varamann og nýbökuðum föður, hinum íslenskumælandi Dana Nikolaj Hansen.  Sem gerði sér lítið fyrir og stangaði boltann í netið, 2-3 og aðeins 18 sekúndur liðnar af leiknum.

Gæslumenn dæstu og aðrir vallarstarfsmenn litu hvor á annan, er gullmarkareglan enn í gildi?  Af hverju gátu þeir ekki skottast til a gera þetta í venjulegum leiktíma.  Nú þurfum við að gæslast áfram og enn… andvarp.

Fátt markvert gerðist næstu 30 mínúturnar annað en að neglur nöguðust pg spennan í stúkunni magnaðist.

Þriðji bikarinn í röð fór svo á loft undir We are the champions.  Júlíus Magnússon fyrirliði og okkar dyggasti liðsmaður Halldór Smári Sigurðsson stýrðu lyftingum undin dynjandi lófataki og fagnaðarópum allra í stúkunni (Hafnfirðingar voru allflestir á leið til síns heima, þar sem þeir voru minntir á að þeir fengu silfrið og Víkingur væri Bikarmeistari á öllum auglýsingaskjám sem á vegi þeirra urðu)

Sigrinum og því magnaða afreki að vera bikarmeistari samfleytt frá árinu 2019 var síðan fagnað innilega með stuðningsfólki félagsins í Safamýrinni, sem nú er ekki kölluð annað en Bikarmýri í hverfinu.

Takk fyrir stuðninginn og til hamingju Víkingar nær og fjær

Hamingjan er hér