fbpx

Víkings leikmenn framlengja

13. apríl 2022 | Knattspyrna
Víkings leikmenn framlengja

 

 

 

Íslands- og bikarmeistarar Víkings hafa gert langtímasamninga við fjóra lykilmenn félagsins. Þeir Halldór Smári Sigurðsson, Ingvar Jónsson, Logi Tómasson og Pablo Punyed hafa allir skrifað undir nýja samninga við Víking sem tryggir veru þeirra hjá félaginu næstu árin. Allir voru þeir lykilmenn í tvöföldum titlasigri Víkings á síðasta tímabili og verða það einnig í baráttunni sem er framundan í Bestu deildinni. Þá hefur Sölvi Geir Ottesen verið ráðinn aðstoðarþjálfari liðsins til tveggja ára.

 

Halldór Smári Sigurðsson er 33 ára gamall miðvörður og leikjahæsti leikmaður í sögu Víkings. Halldór hefur alla tíð spilað fyrir Víking og er að sjálfsögðu uppalinn Víkingur. Hann lék stórt hlutverk á síðasta tímabili ásamt Sölva og Kára í hjarta varnar Víkings en mun nú taka þátt í að stjórna varnarleiknum ásamt þeim Kyle Mclagan og Oliver Ekroth.

Halldór Smári skrifar undir samning sem gildir út árið 2023

 

Ingvar Jónsson er 32 ára gamall markvörður og tvöfaldur Íslandsmeistari í knattspyrnu. Hann var Íslandsmeistari með Stjörnunni árið 2014 og með Víkingi á síðasta tímabili. Ingvar er þaulreyndur landsliðsmaður og hefur verið frábær í marki Víkings síðan hann kom til félagsins haustið 2019. Hann átti nokkrar risastórar vörslur á síðasta tímabili þegar Víkingur var í harðri baráttu við Breiðablik um Íslandsmeistaratitilinn og einnig í undanúrslitum Mjólkurbikarsins.

Ingvar Jónsson skrifar undir samning sem gildir út árið 2025

 

Logi Tómasson er 21 árs gamall bakvörður og uppalinn Víkingur sem er ætlað stórt hlutverk á komandi tímabili. Logi, sem er þekktur fyrir sinn vinstri fót og frábærar sendingar inn í teiginn, hefur spilað afar vel á undirbúningstímabilinu og virðist ætla að taka við keflinu af Atla Barkarsyni sem fór í atvinnumennsku eftir síðasta tímabil. Logi er reynslumikill þrátt fyrir ungan aldur og það verður mjög spennandi að fylgjast með honum á komandi tímabili.

Logi Tómasson skrifar undir samning sem gildir út árið 2025

 

Pablo Punyed er þaulreyndur landsliðsmaður fyrir El Salvador og margfaldur Íslands- og bikarmeistari sem kom til Víkings fyrir síðasta tímabil frá KR. Hann hefur orðið Íslandsmeistari með Stjörnunni, KR og Víkingi ásamt því að hafa orðið bikarmeistari með ÍBV og Víkingi. Pablo var einn besti leikmaður Íslandsmótsins á síðasta tímabili og hefur svo sannanlega heillað hug og hjörtu allra Víkinga innan sem utan vallar.

Pablo Punyed skrifar undir samning sem gildir út 2025

 

Þessir fjórir leikmenn bætast í hóp annarra lykilmanna sem hafa endurnýjað samninga sína að undanförnu, en nýlega var tilkynnt um endurnýjun samninga Erlings Agnarssonar, Júlíusar Magnússon og Kristals Mána Ingasonar.

 

Sölvi Geir Ottesen er dýrkaður og dáður af öllum Víkingum. Sölvi kom heim úr atvinnumennsku árið 2018 og hefur síðan verið lykilmaður í velgengni Víkings og tryggt þrjá titla. Hann lagði skóna á hilluna eftir að hafa orðið tvöfaldur meistari með uppeldisfélagi sínu á síðasta tímabili og kemur nú inn í þjálfarateymi liðsins. Þetta er ótrúlegur styrkur fyrir félagið og mikið fagnaðarefni.

Sölvi Geir skrifar undir samning sem gildir út árið 2023

 

Arnar Gunnlaugsson þjálfari Víkings segir

„ Ég er ánægður að við náðum að festa áframhaldandi samninga við eftirfarandi leikmenn. Þetta eru reynslumiklir leikmenn sem hafa gegnt stóru hlutverki í árangri Víkings seinustu ár. Þetta eru miklir leiðtogar í hópnum sem eru að binda sig við félagið til næstu ára.

Sölvi Geir kemur sterkur inní þjálfarateymið með mikla reynslu sem fyrrum atvinnumaður og landsliðsmaður sem mun klárlega nýtast okkur, ég er gríðarlega ánægður að fá sölva inní þjálfarateymið „

Stjórn knattspyrnudeildar Víkings er yfirsig ánægð með að hafa tryggt áframhaldandi þjónustu þessa frábæra hóps og hlakkar mikið til komandi tímabils með liðinu.

 

Áfram Víkingur!