Ari Sigurpálsson keyptur frá Bologna
8. febrúar 2022 | KnattspyrnaAri Sigurpálsson keyptur frá Bologna og lykilmenn skrifa undir framlengingu!
Íslands- og bikarmeistarar Víkings hefur keypt hinn efnilega Ara Sigurpálsson frá Bologna á Ítalíu og hefur hann skrifað undir samning við félagið til ársins 2025. Ari er fæddur árið 2003 en hann fór frá HK til Bologna á Ítalíu á lánssamningi fyrir tveimur árum en var síðar keyptur af ítalska félaginu. Ari er mættur til landsins og hefur hafið æfingar hjá Víkingi. Víkingur bindur miklar vonir við Ara sem bætist nú í hóp þeirra ungu og spennandi leikmanna sem Víkingur hefur samið við undanfarin ár.
Lykilmennirnir Erlingur Agnarsson, Júlíus Magnússon og Kristall Máni Ingason hafa allir skrifað undir framlengingu á sínum samningnum við félagið en þeir voru allir í stórum hlutverkum á síðasta tímabili þegar Víkingur varð Íslands- og bikarmeistari. Erlingur er fæddur árið 1998 og hefur spilað 155 leiki fyrir Víking, Júlíus er einnig fæddur árið 1998 og hefur spilað 89 leiki fyrir Víking og Kristall Máni er fæddur árið 2002 en hefur spilað 54 leiki fyrir Víking. Þrátt fyrir ungan aldur eru þeir félagar því með mikla reynslu sem mun vafalaust nýtast á komandi tímabili. Það er því mikið gleðiefni að þeir skuli framlengja samninga sína við félagið og til marks um þann mikla metnað sem býr í þeim félögum. Samningar Erlings og Kristals eru til ársins 2024 en samningur Júlíusar til ársins 2025.
Þá hefur Bjarki Björn Gunnarsson einnig skrifað undir framlengingu á samningi sínum við Víking til ársins 2024, en Bjarki er uppalinn Víkingur sem lék á láni hjá Þrótti V. á síðasta tímabili.
Stjórn knattspyrnudeildar Víkings lýsir yfir ánægju sinni með að félagið haldi áfram að laða til sín unga og efnilega leikmenn sem styrkja félagið til framtíðar. Víkingur hefur gefið ungum og spennandi leikmönnum mikil tækifæri á undanförnum árum og mun halda því áfram; á sama tíma og liðið spilar skemmtilegan og árangursríkan fótbolta.