fbpx

Vegna leiks Víkings og Leiknis R. á laugardag:

23. september 2021 | Knattspyrna
Vegna leiks Víkings og Leiknis R. á laugardag:
mynd fótbolti.net

Víkin opnar klukkan 12:00 á laugardaginn með veitingasölu og sölu á derhúfum, treflum og annars konar varningi. Leikurinn sjálfur hefst klukkan 14:00. Við hvetjum fólk til þess að mæta snemma á völlinn og ganga að heiman, ef það er möguleiki.
Við getum lofað mikilli stemningu í íþróttasalnum fyrir leik þar sem Víkingar munu hittast og hita upp fyrir leikinn. Einnig verða sölubásar á hefðbundnum svæðum utandyra.

Víkin er eitt sóttvarnarhólf á leiknum og eru stuðningsmenn ýmist með sæti í stúkunni eða stæði. Staðsetning kemur fram í Stubbi þar sem allir miðar eru aðgengilegir. Mikilvægt er að allir virði þá miða sem þeir hafa til ráðstöfunar, hvort sem þeir eru í stúku eða stæði.

ALLIR sem eru 16 ára og eldri og eiga aðgöngumiða á leikinn þurfa að fara í hraðpróf og framvísa neikvæðri niðurstöðu við innganginn á völlinn – ásamt aðgöngumiða. Hraðpróf eru opin alla virka daga frá 08:00 til 12:00 og frá 12:45 til 20:00. Hraðpróf, sem er ókeypis, er pantað í gegnum slóðina hradprof.covid.is fyrir próf á Suðurlandsbraut og einnig á vefsíðunni testcovid.is hjá Öryggismiðstöðinni. Staðsetningar tveggja skimunarstöðva Öryggismiðstöðvarinnar í Reykjavík eru í Húsi verslunar við hliðina á Kringlunni annars vegar og BSÍ hins vegar.
Hraðpróf má ekki vera eldra en 48 klst gamalt og ekki nægir að framvísa vottorði um fyrri sýkingu. Við inngang í Víkina verður QR kóði skannaður sem staðfestir neikvætt COVID-19 hraðpróf.

Við hlökkum mikið til að taka á móti okkar frábæru stuðningsmönnum og eiga magnaða stund saman á laugardaginn. Tökum höndum saman og gerum þennan dag eftirminnilegan og jákvæðan með frábærum stuðningi við strákana okkar.

Áfram Víkingur!

Víkingur
Knattspyrnufélagið Víkingur
Traðarlandi 1 & Safamýri 26
108 Reykjavík
Sími 519 7600
vikingur@vikingur.is