fbpx

EuroVikes – næstu leikir og miðasala

18. nóvember 2024 | Knattspyrna
EuroVikes – næstu leikir og miðasala

Kæru Víkingar, framundan eru 3 mikilvægustu leikir í sögu Knattspyrnufélagsins Víkings.

Við byrjum á að heimsækja FC Noah til Armeníu þann 28.nóvember næstkomandi. Sigur í þeim leik tryggir okkur sæti í umspili við annað lið sem endar í sætum 9-24 um að komast í 16 liða úrslit Sambandsdeildar Evrópu. Það má því með sanni segja að tímabilið hjá okkur sé í raun rétt að byrja.

FC Noah tapaði 0-8 gegn Chelsea á sama tíma og Víkingur sigraði Borac 2-0 en Nói og félagar eru heldur betur sýnd veiði en ekki gefin. Eitthvað er um að Víkingar ætli að ferðast á leikinn og hlökkum við til að sýna ykkur meira frá undirbúningi fyrir þann leik og ferðasöguna sjálfa.

Annar heimavöllur Víkinga í Sambandsdeild Evrópu hefur verið  Ölver Sportbar og verður engin undantekning þar á. Automan og félagar ætla að halda uppi stuðinu fyrir leik og á meðan leik stendur. Nánari dagskrá verður auglýst þegar nær dregur.

Næsti heimaleikur okkar í Sambandsdeild Evrópu er gegn sænsku risunum í Djurgården og fer hann fram 12.desember næstkomandi á Kópavogsvelli. Miðasala fyrir þann leik verður auglýst öðru hvorum megin við næstu helgi og búist er við að það muni færri komast að en vilja. Mikill fjöldi stuðningsfólks Djurgården er væntanlegt til landsins og vegna reglna UEFA þá er hlutfall miða sem Djurgården á rétt á hærra en við eigum að venjast í t.d. Bestu Deildinni eða Mjólkurbikarnum. Við hvetjum því alla Víkinga til að vera vakandi fyrir því þegar miðasalan hefst. Einnig verður umgjörðin í kringum þann leik stærri en við eigum að venjast og dagskráin fyrir þann stóra dag verður auglýst betur á næstunni.

Síðasti leikurinn í deildinni er svo gegn liði LASK frá Austurríki og fer sá leikur fram á Oberösterreich Arena í Linz. Þess má geta að LASK og Borac mætast 28.nóvember næstkomandi og LASK mætti Djurgården í fyrstu umferðinni þar sem liðin gerðu 2-2 jafntefli. Einnig hafa LASK mætt Cercle Brugge en þar gerðu liðin 0-0 jafntefli.

Kæru Víkingar, takið frá eftirfarandi dagsetningar og það eina sem við biðjum um er fullur fókus á þessi 3 verkefni sem eru framundan. Ykkar stuðningur hefur verið ómetanlegur á árinu og með ykkar hjálp náum við lengra í hverri tilraun.