fbpx

Sigdís Eva Bárðardóttir til Norrköping

5. júlí 2024 | Knattspyrna
Sigdís Eva Bárðardóttir til Norrköping
Sigdís Eva Bárðardóttir er fyrsti leikmaður meistaraflokks kvenna sem er keypt til liðs í atvinnumennsku

Knattspyrnudeild Víkings hefur samþykkt tilboð sænska úrvalsdeildarfélagsins IFK Norrköping í Sigdísi Evu Bárðardóttur, leikmann meistaraflokks og mun hún ganga til liðs við félagið á næstu dögum.

Sigdís er uppalinn Víkingur og kemur upp úr unglingastarfinu hér í Hamingjunni. Hún er mikil fyrirmynd fyrir iðkendur innan sem utan vallar og kveðjum við Sigdísi með miklum söknuði en óskum henni á sama tíma velfarnaðar á nýjum vettvangi.

Fyrsti leikurinn í meistaraflokki kom árið 2021 í Lengjudeildinni þegar Sigdís var einungis 14 ára gömul. Það ár spilaði hún 6 leiki í Lengjudeildinni en fyrsta markið kom árið 2022 gegn Grindavík í Lengjudeildinni og fyrsti leikur í byrjunarliði kom svo gegn Augnablik í ágúst sama ár.

Árið 2023 þarf líklega ekki að rifja upp fyrir Víkingum en þá má segja með sanni að Sigdís hafi sprungið út og var lykilleikmaður í ógnarsterku Víkingsliði sem endaði tímabilið með þrjá bikara, Lengjudeild, Lengjubikar og sjálfan Mjólkurbikarinn.

Sigdís lék 15 leiki í Lengjudeildinni árið 2023 og skoraði í þeim 8 mörk en í Mjólkurbikarnum lék hún alla 6 leiki Víkings og skoraði í þeim 8 mörk. Öðlaðist hún viðurnefnið “BikarSigdís” enda voru þessi mörk gríðarlega mikilvæg fyrir liðið á leiðinni í Laugardalinn.

Sigdís Eva spilaði 86 leiki fyrir Víking og skoraði í þeim 46 mörk eða rúmlega mark í öðrum hverjum leik og kveður félagið með eftirfarandi titla í bikaraskápnum og þá látum við ótalið málmsafnið úr yngri flokkunum.

  • Lengjubikar 2023
  • Lengjudeild 2023
  • Mjólkurbikar 2023
  • Reykjavíkurmót 2024
  • Meistarar Meistaranna 2024

Sigdís hefur einnig leikið 31 leik fyrir yngri landslið Íslands og skoraði í þeim 4 mörk.

Kári Árnason, yfirmaður knattspyrnumála hjá Víking
“Við Víkingar erum fyrst og fremst stolt af Sigdísi Evu og erum spennt að sjá hversu langt hún getur náð. Þakið hennar er mjög hátt og við megum gera ráð fyrir því að heyra nafn Sigdísar í samhengi við A landsliðið okkar á næstu misserum. Það er líka vert að minnast á að hér er um að ræða fyrstu sölu á leikmanni úr kvennahluta knattspyrnudeildar Víkings. Verkefnið í meistaraflokki kvenna er ungt, aðeins á sínu fimmta ári og þó það sé alltaf erfitt að kveðja leikmenn þá er gaman að sjá að verkefnið hér í Hamingjunni er á réttri leið. Árangur undanfarinna ára hefur heldur betur sýnt það og sannað. Takk fyrir okkur Sigdís og sjáumst í Hamingjunni!”

Einar Guðnason, þjálfari
“Sigdís er leikmaður með gríðarlega mikla hæfileika og mikinn X factor í hægri fætinum. Auk þess er hún með hugarfar sem á eftir að fleyta henni langt”