Merki Víkings

Þorbjörn Þórðarson, málarameistari og formaður Víkings árin 1943-1944, hannaði merki Víkings. Óljóst er hvenær merkið var teiknað en það virðist birtast fyrst opinberlega árið 1933 á forsíðu Víkingsblaðsins, sem gefið var út í tilefni af 25 ára afmæli Víkings.

Allt frá því að merki Víkings var teiknað hefur það fengið ýmsar útlitsbreytingar - allt frá fjölda randa til form- og litabreytinga á skildi og bolta. Það ætti þó ekki að koma á óvart enda langur tími er liðinn frá því að merkið leit fyrst dagsins ljós og engar leiðbeiningar til um notkun þess.

1933

Forsíða Víkingsblaðsins í tilefni af 25 ára afmælis Víkings.

Merkið birtist fyrst opinberlega alrautt á svörtum bakgrunni. Rendurnar voru upphaflega fimm en tveimur röndum var bætt við merkið seinna.

1938

Forsíða Víkingsblaðsins í tilefni af 30 ára afmæli Víkings.

Hér er væntanlega um fríhendis teikningu að ræða, sennilega eftir minni, þegar hlutföll þessa merkis og merkisins frá 1933 eru borin saman. Það var um þetta leyti sem merkið birtist fyrst á treyjum Víkings.

1938

Auglýsing fyrir 30 ára afmælis-dansleik Víkings í dagblaði.

Takið eftir láréttum línum í miðjurönd merkisins. Útskýring gæti verið mistök við teikningu eða slæm prentun. Hins vegar er að finna útskorið Víkingsmerki á ræðupúlti Víkings frá 1948, sem hefur rifflaðan útskurð á miðjurönd, líkt og þetta merki. Tilviljun?

1958

Forsíða Víkingsblaðsins í tilefni af 50 ára afmæli félagsins.

Þetta merki líkist því fyrsta frá 1938 hvað varðar útlit, hlutföll og symmetríu.

1973

Forsíða Víkingsblaðsins í tilefni af 65 ára afmæli félagsins.

Líkt og árið 1938 er hér um handteiknað merki að ræða og er það mjög ýkt í útliti, nánast eins og það sé teiknað fyrir myndasögu.

1983

Forsíða bókarinnar „Áfram Víkingur“.

Nokkuð skökk og skæld útgáfa af merkinu prýðir forsíðu bókarinnar. Liturinn á boltanum hefur hér þróast í að vera meira appelsínugulur en brúnn. Þetta merki hefur sjö rendur.

10. áratugurinn

Forsaga þessarar útgáfu merkisins er óljós.

Hér hefur orðið mikill viðsnúningur á litnum í bolta merkisins sem er hér aftur orðinn brúnn en helst of dökkur. Merkið er ennþá nokkuð skakkt og útlínur ekki jafn breiðar.

10. áratugurinn

Forsaga þessarar útgáfu merkisins er óljós.

Tilraun til að lappa upp á merkið á undan. Útlínur orðnar hreinni en merkið ennþá skakkt og saumar í bolta afbakaðir. Litur í bolta orðinn ljósari en ennþá dökkur.

Um 2000

Forsaga þessarar útgáfu merkisins er óljós.

Víkingsmerkið greinilega tekið og fínpússað. Merkið er orðið symmetrískt en aftur mikill viðsnúningur í lit á bolta sem er nú orðinn gulur.

2008

100 ára afmæli Víkings.

100 ára afmælismerki Víkings var eflaust flækt meira en þörf var á. Settar voru skyggingar og glans verkun í merkið til að gefa því nútímalegra útlit og þrívíddar tilfinningu. Þá er liturinn í boltanum orðinn djúp-appelsínugulur.

2009-2026

Forsaga þessarar útgáfu merkisins er óljós.

Tognað hefur verulega úr boltanum og er hann því ekki hringlaga. Liturinn í boltanum hefur haldið sér frá afmælismerkinu og þá sést greinilega hvernig saumarnir í boltanum hafa breyst í gegnum árin þegar merkið er borið saman við fyrstu útgáfu.

Tímamót

Kominn var tími til að setja punkt fyrir aftan tæplega 100 ára rót á merki félagsins, endurnýja það og setja útliti þess og notkun skorður með leiðbeiningum þar um.

Við hönnun á endurnýjuðu merki Víkings voru týndir þættir frá fyrstu útgáfum merkisins sóttir og þeim blandað saman við eiginleika sem birtust síðar meir. Þannig var tekið tillit til allrar sögunnar og þeirrar náttúrulegu vegferðar sem merkið fór í seinustu öldina. Þá var skerpt á litum merkisins sem eru nú nútímalegri og henta stafrænu umhverfi betur.

Meðfylgjandi endurnýjuðu merki félagsins er er kynnt til leiks einfölduð hliðarútgáfa af merkinu þar sem bolti og rendur hafa verið fjarlægðar. Það er skoðun félagsins að V-ið/skjöldurinn í merkinu sé það sterkt og þekkjanlegt merki eitt og sér að hægt sé að nota það við ákveðin tilefni.

Víkingur Logo

Litir Víkings

Aðallitir

Rauður

Rauði liturinn merkir ástríðu fyrir félaginu og þeirri íþróttum sem við stundum, komum að og fylgjumst með.

Svartur

Svartir liturinn er sá styrkur sem hefur fleytt félaginu í gegnum hæðir og lægðir frá stofnun.

Stoðlitir

Hvítur

Hvíta V-ið/skjöldurinn heldur merkinu saman og táknar samheldni innan félagsins, allt frá íþróttafólki til stuðningsmanna, sjálfboðaliða og starfsfólks.

Brúnn

Brúni liturinn í merkinu birtist í 19. aldar leðurbolta og stendur fyrir ríka sögu félagsins.

Gylltur

Gyllti liturinn táknar eilífðar skuldbindingu félagsins til árangurs.

Infrarauður

Infrarauði liturinn er orkuskotið okkar - orkan sem allt fólkið sem kemur að félaginu gefur til þess.

Vínrauður

Vínrauði liturinn stendur fyrir hefð - hefð fyrir því að leggja sig alla/allan fram fyrir Víking og gefast ekki upp þó á móti blási.