Víkingur – Fylkir | Sigur í fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu

6. janúar 2024 | Víkingur TV, Knattspyrna
Víkingur – Fylkir | Sigur í fyrsta leik í Reykjavíkurmótinu
Helgi kom Víkingum á bragðið eftir 15 sekúndur

Í dag mættust Víkingur og Fylkir í fyrsta leik ársins og jafnframt fyrsta leik Reykjavíkurmótsins 2024. Rúmlega 100 áhorfendur lögðu leið sína í Hamingjuna og var góð stemning í stúkunni frá fyrstu mínútu. Helgi Guðjónsson kveikti heldur betur í Víkinni þegar hann kom Víking í 1-0 eftir ca. 15 sekúndur. Markið kom upp úr góðri pressu og átti Viktor Örlygur góða stungusendingu á Helga sem gerði engin mistök og setti boltann í fjærhornið fram hjá góðum markmanni Fylkis, Guðmundi Rafni Ingasyni. Frábær byrjun og næstu 15-20 mínútur var í raun ótrúlegt að Víkingur hefði ekki skorað 3-4 mörk til viðbótar.

En á ’38 mínútu kom enginn annar en Danijel Dejan Djuric Víking í 2-0 með glæsilegu skallamarki eftir frábæran undirbúning frá Karli Friðleifi Gunnarssyni. Allt stefndi í örugga 2-0 forystu í hálfleik en Fylkismenn sóttu í sig veðrið og Guðmundur Tyrfingsson minnkaði muninn á ’43 mínútu með stórglæsilegu marki, sláin inn. Staðan 2-1 í hálfleik. Arnar gerði þrjár breytingar á liðinu í hálfleik en inn komu Gísli Gottskálk, Niko Hansen og Ari Sigurpáls fyrir Birni Snæ, Pablo og Ella.

Seinni hálfleikur byrjaði eins og sá fyrri endaði, með mikilli pressu og sókn Fylkismanna sem ætluðu greinilega að selja sig dýrt í Hamingjunni í dag. Þessi byrjun á seinni hálfleiknum skilaði sér með marki frá Stefáni Gísla Stefánssyni sem jafnaði leikinn, aftur með virkilega góðu skoti fyrir utan teig. Staðan orðin 2-2 og það fór smá kurr um stúkuna á þessum tímapunkti.

Strax eftir jöfnunarmarkið gerði Arnar aftur breytingar á liðinu en Halldór Smári hafði fengið smá hnjask og sömuleiðis fór Karl Friðleifur útaf. Inn á komu Bjarki Björn Gunnarsson og Sveinn Gísli. Eftir þessar breytingar tók Víkinga smá tíma að ná tökum á leiknum aftur en svo á ’62 mínútu fengu Víkingar aukaspyrnu á góðum stað vinstra megin við vítateig Fylkismanna. Yfir boltanum stóðu Helgi Guðjónsson og Viktor Örlygur. Svo fór að Viktor tók spyrnuna og setti boltann yfir vegginn og í nærhornið hjá Fylki. Staðan orðin 3-2 og okkar menn virtust fá smá blóð á tennurnar við þetta mark. Nú skyldu 3 stigin vera tryggð.

Á ’85 mínútu kom frábær spil kafli sem endaði með því að Ari Sigurpáls fékk boltann úti á hægri kanti, hann klobbaði varnarmann fylkis, Aron Snæ Guðbjörnsson sem tæklaði Ara þannig að hann kastaðist upp í loftið. En boltinn endaði hjá Helga Guðjóns sem lék á 2 Fylkismenn, kom boltanum á Niko inn í teig sem lagði boltann fyrir sig og þá þarf ekki að spyrja að leikslokum. Staðan orðin 4-2 fyrir Víking og á meðan leikmenn Víkings fögnuðu markinu fékk Aron Snær, leikmaður Fylkis að líta sitt annað gula spjald og þar með það rauða og var sendur rakleiðis í glænýjan og uppgerðan gestaklefa í Víkinni.

Niðurstaðan
Góður 4-2 sigur Víkings á sterku og spræku Fylkisliði sem verður gaman að fylgjast með í sumar. Erfitt er að taka einhvern einn út úr Víkingsliðinu þar sem allt liðið átti góðan dag. En það þarf að velja mann leiksins og fyrir valinu varð Viktor Örlygur, hann átti frábæran leik í dag, skoraði og lagði upp og stjórnaði miðjunni eins og herforingi.

Virkilega gaman að sjá alla ungu leikmennina koma inn og sýna frábæra frammistöðu og skv. upplýsingum úr klefanum þá eru engin alvarleg meiðsli eftir leikinn. Ágætis niðurstaða það. Galið að hugsa til þess að leikmenn á borð við Gunnar Vatnhamar, Oliver Ekroth, Aron Elís, Jón Guðni, Valdimar Þór, Pálmi Rafn og fleiri bíði á hliðarlínunni. Ótrúlegur hópur.

Næsti leikur er svo á morgun þegar stelpurnar okkar taka á móti ÍR í Egilshöllinni en sá leikur var færður úr Víkinni vegna slæmrar veðurspár. Við erum að reyna að komast í útsendingarkerfið í Egilshöllinni og getum þá vonandi sent hann út í beinni útsendingu líka.

Tímabilið fer vel af stað kæru Víkingar. Hamingjan er svo sannarlega hér. Sjáumst í Egilshöll á morgun!

Hörður

Ps. hér má svo sjá helstu atvik úr leiknum.